Ársreikningur Ljósleiðarans 2022 – Efnahagur styrkist og traust tök á rekstri


Helstu niðurstöður úr ársreikningi Ljósleiðarans árið 2022 

  • Rekstrartekjur á árinu 2022 námu 3.845 m.kr. samanborið við 3.396 m.kr. árið 2021. 
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.714 m.kr. árið 2022 samanborið við 2.386 m.kr. árið 2021 og hækkar um 13,7% milli ára.  
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 1.300 m.kr. árið 2022 samanborið við 1.189 m.kr. árið 2021. 
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 1.409 m.kr. árið 2022 en voru 847 m.kr. á árinu 2021 og hækkuðu því um 562 m.kr. milli ára. 
  • Tap ársins 2022 nam 87 m.kr. samanborið við 273 m.kr. hagnað árið 2021.  
  • Eignir félagsins í árslok 2022 námu 33.389 m.kr. og hækkuðu um 3.868 m.kr. frá fyrra ári. 
  • Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 16.641 m.kr. í árslok 2022 og hækkuðu um 1.156 m.kr. 
  • Eiginfjárhlutfall Ljósleiðarans var 40,4% í lok árs 2022 og eigið fé 13.475 m.kr. 

Ársreikningur Ljósleiðarans 2022, sem samþykktur var af stjórn í dag, endurspeglar að mikilvægt fjárfestingaár er að baki hjá fyrirtækinu og reksturinn í traustum farvegi. Verðmæti heildareigna Ljósleiðarans jókst um tæplega 3,9 milljarða króna, eiginfjárhlutfall hækkaði frá fyrra ári og var 40,4%  í árslok 2022 40,4%. 

Framlegð rekstursins – EBITDA – óx á milli ára og var, eins og fyrri ár, nýtt til fjárfestinga og áframhaldandi vaxtar fjarskiptakerfis Ljósleiðarans. Tekjur jukust um 13% milli ára og launakostnaður dróst saman. Fjármagnskostnaðurinn vex hinsvegar verulega vegna verðbólgu og vaxtahækkana og hefur neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans:  
Rekstur Ljósleiðarans gekk vel á árinu 2022 og var tekjuvöxtur og rekstrarhagnaður umfram áætlanir. Mikil verðbólga og hækkun vaxta hafði hins vegar talsverð áhrif á afkomu félagsins og varð til þess að félagið skilaði 87 m.kr. tapi á árinu. Rekstrarhorfur fyrir árið 2023 eru góðar en hár fjármagnskostnaður mun áfram hafa talsverð áhrif, sérstaklega í ljósi þess að nauðsynlegt er að byggja upp og fjárfesta til að mæta nýjum áskorunum á fjarskiptamarkaði og tengja allt það nýja húsnæði sem er í byggingu. 
Talsverðar breytingar urðu á fjarskiptamarkaði á árinu 2022. Stærsta innviðafyrirtæki landsins komst í erlenda eigu á sama tíma og hernaðarátök í Evrópu beindu sjónum mjög að fjarskiptaöryggi. Ljósleiðarinn tók stór skref einmitt til eflingar fjarskiptaöryggis með leigu á þráðum í NATO-ljósleiðaranum umhverfis landið og samningum við Farice og Nova. Þá var samið um kaup á stofnneti Sýnar og gerður 12 ára þjónustusamningur við fyrirtækið, hvorttveggja í því skyni að efla öryggi fjarskipta innanlands og tryggja að Ljósleiðarinn væri áfram samkeppnishæfur á breyttum fjarskiptamarkaði, almenningi til hagsbóta. Samningarnir við Sýn voru gerðir með fyrirvara um staðfestingu Samkeppniseftirlitsins. Kaupin á stofnnetinu hafa þegar verið fjármögnuð en fjármagnsskipan Ljósleiðarans er nú til umfjöllunar hjá eigendum OR.

Um Ljósleiðarann 
Ljósleiðarinn ehf. er fjarskiptafélag á heildsölumarkaði í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, stofnað árið 2007. Hlutverk Ljósleiðarans er stuðla að heilbrigðri samkeppni á fjarskiptamarkaði með því að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgang að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti. 

Tengiliður:
Erling Freyr Guðmundsson
framkvæmdastjóri
erling.freyr.gudmundsson@ljosleidarinn.is

Viðhengi



Attachments

Ljósleiðarinn ehf. Ársreikningur  2022