Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf.: Úthlutun kauprétta


Á fundi stjórnar Ölgerðarinnar þann 21. apríl 2023 tók stjórn ákvörðun um að veita stjórnendum og tilteknum lykilstarfsmönnum kauprétti að samtals 59.500.000 hlutum í félaginu, eða sem samsvarar um 2,1% af hlutafé Ölgerðarinnar. Ákvörðunin byggir á samþykkt aðalfundar frá maí 2021. Kaupréttirnir voru veittir framkvæmdastjórn og tilteknum lykilstarfsmönnum. Þar af var forstjóra og meðlimum framkvæmdastjórnar veittur kaupréttur að samtals 31.500.000 hlutum, sem skiptast jafnt milli umræddra starfsmanna.

Kaupréttarsamningunum er ætlað að samtvinna hagsmuni starfsmanna og félagsins til lengri tíma. Skilmálar þeirra eru í samræmi við starfskjarastefnu félagsins sem samþykkt var á aðalfundi Ölgerðarinnar hinn 19. maí 2022.

Meginefni kaupréttarsamninganna er eftirfarandi:

  • Veittur er kaupréttur á hlutabréfum á grunnverðinu ISK 11,90 per hlut, sem var dagslokagengi hluta í Ölgerðinni eins og það er skráð á aðalmarkaði Nasdaq Iceland þann 19. apríl 2023.
  • Kauprétturinn ávinnst á þremur árum frá úthlutun (e. vesting time). Fyrsta nýtingartímabil hefst þegar að ávinnslutímabili líkur og er kauprétturinn nýtanlegur í áföngum hinn 21. apríl ár hvert á árunum 2026-2028. Hafi ársreikningur félagsins ekki verið birtur á fyrirhuguðum nýtingardegi færist nýtingardagurinn það ár til næsta virka dags eftir birtingu ársreiknings. Kaupréttarhafi getur hverju sinni frestað nýtingu áunnins kaupréttar til næsta nýtingartímabils. Að því marki sem kaupréttur er ónýttur eftir 21. apríl 2028 fellur kauprétturinn niður.   
  • Kaupréttur er aðeins gildur sé kaupréttarhafi í starfi hjá Ölgerðinni eða dótturfélögum Ölgerðarinnar á nýtingardegi. Komi starfslok kaupréttarhafa til vegna atvika sem kaupréttarhafa verður ekki um kennt skal hann þó eiga hlutfallslegan kauprétt að hlutunum miðað við þann tíma sem liðinn er af kaupréttartímabilinu og skal þá heimilt að neyta áunnins kaupréttar síns samkvæmt ákveðnum reglum.
  • Komi til þess að félagið verði afskráð úr kauphöll verður kauprétthafa heimilt að nýta allan áunninn kauprétt áður en slík afskráning kemur til framkvæmda.

Heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Ölgerðin hefur veitt starfsfólki sínu nemur nú 136.375.000 hluta, eða um 4,9% hlutafjár í félaginu, og er þá meðtalin þessa nýja úthlutun kauprétta. Heildarkostnaður félagsins vegna nýju samninganna út nýtingartímann er áætlaður um 162 milljónir og er þá byggt á reiknilíkani Black-Scholes.

Í viðhengi má finna gildandi starfskjarastefnu Ölgerðarinnar.

Viðhengi



Attachments

Starfskjarastefna Ölgerðarinnar