Ljósleiðarinn – Sveitarfélög samþykkja aukningu hlutafjár


Sveitarfélögin þrjú – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð – sem eru eigendur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og endanlegir eigendur Ljósleiðarans ehf., hafa samþykkt að auka hlutafé félagsins og bjóða nýjum hluthöfum það til kaups. Í krafti þess umboðs verður nú unnið að frekari undirbúningi af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur og Ljósleiðarans. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur verið ráðin sem ráðgjafi og til að hafa umsjón með sölu á nýju hlutafé.

Kerfi Ljósleiðarans 

Markmið hlutafjáraukningar er að efla Ljósleiðarann ehf. til lengri tíma litið á heildsölumarkaði fjarskipta og nýta tækifæri sem núverandi uppbygging á nýjum öflugri fjarskiptalandshring Ljósleiðarans mun leiða af sér. Ljósleiðarinn á og rekur ljósleiðaranet  sem nær nú til um 125.000 heimila og fyrirtækja í landinu. Öll helstu smásölufyrirtæki landsins á fjarskiptamarkaði nýta netið til að veita heimilum og fyrirtækjum þjónustu sína. Nýi landshringurinn mun ná hringinn í kringum landið og til Vestfjarða. Fjarskiptafyrirtæki og fleiri nýta sér það stofnnet til gagnaflutnings innan sinna kerfa þar sem flutningur innan farsímakerfanna – milli farsímamastra og tengimiðstöðva – er umfangsmestur. 

Samþykktir sveitarfélaganna 

Í tilkynningu til Kauphallar 24. október 2022 greindi Ljósleiðarinn frá samþykkt hlutahafafundar á tillögu stjórnar fyrirtækisins um aukningu hlutafjár. Samþykktin var gerð með fyrirvara um staðfestingu frá eigendum OR, Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð. OR á nú allt hlutafé Ljósleiðarans. Borgarbyggð staðfesti ákvörðun hluthafafundar 2. nóvember 2022 og hér fara samþykktir hinna eigendanna tveggja: 

Akraneskaupstaður 25. apríl 2023.

„Bæjarstjórn samþykkir hlutafjáraukningu Ljósleiðarans ehf. og gerir bókun bæjarráðs [24. apríl 2023] að sinni:

Bæjarstjórn Akraness fagnar þeim framfarahug sem birtist í framlagðri samþykkt hlutahafafundar Ljósleiðarans ehf. 24. október 2022 um aukningu hlutafjár til að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins enn frekar og efla þar með í senn samkeppnisstöðu Íslands, fjarskiptaöryggi landsins og öryggi fjarskipta í landinu.

Íbúar Akraness voru á meðal þeirra alfyrstu á Íslandi til að njóta ljósleiðaratenginga til heimila sinna og þekkja því vel til þeirrar aukningar lífsgæða sem öflugar og traustar fjarskiptatengingar bera með sér.

Bæjarstjórn Akraness þakkar fyrir þær ítarlegu greiningar og gögn sem hafa verið lagðar fram til að undirbyggja ákvarðanir eigenda Orkuveitu Reykjavíkur í þessu mikilvæga máli fyrir íslenskt samfélag.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir fyrir sitt leyti heimild til hækkunar hlutafjár Ljósleiðarans ehf. um allt að kr. 3.250.000.000,- að nafnverði (þrírmilljarðartvöhundruðogfimmtíu-milljónirkróna), þ.e. 33,33% af heildarhlutafé félagsins, eða þannig að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu verði aldrei minni en 66,67% af heildarhlutafé Ljósleiðarans ehf. og að heimildin falli niður 31. desember 2024 að því marki sem hún er þá enn ónýtt.“

Reykjavíkurborg 2. maí 2023.

„Lagt er til að samþykkt verði heimild til hækkunar hlutafjár Ljósleiðarans ehf. um allt að kr. 3.250.000.000,- að nafnverði (þrírmilljarðar-tvöhundruðogfimmtíumilljónirkróna), þ.e. 33,33% af heildarhlutafé félagsins , eða þannig að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu verði aldrei minni en 66,67% af heildarhlutafé Ljósleiðarans ehf. Fjárhæðin byggir á sviðsmynd A hybrid og tekur mið af ítarlegu áhættumati sem lagt var fyrir rýnihóp borgarráðs. Jafnframt er lagt til að samþykkt verði að val á aðferðarfræði og umbúnaði við útgáfu nýs hlutafjár verði undirbúin á ábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnar hennar og verði borgarráði kynnt áformin. Stjórn Ljósleiðarans ehf. verði veitt heimild til að ákvarða útboðsgengi og greiðslukjör hinna nýju hluta og í hvaða áföngum heimildin verði nýtt. Samþykkt þessi er bundin því skilyrði að andvirði nýs hlutafjár í Ljósleiðaranum ehf. verði nýtt til að greiða niður skuldir Ljósleiðarans ehf. og styrkja stöðu félagsins á samkeppnismarkaði. Jafnframt skal Ljósleiðarinn ehf. leggja nýtt mat á og forgangsraða fjárfestingaráformum út frá greiningu á kostnaði þeirra, ábata og áhættu. Þá er lagt til að samþykkt verði að heimild þessi til hlutafjárhækkunar falli niður 31. desember 2024 að því marki sem hún er þá enn ónýtt.“

 Arion banki til ráðgjafar og umsjónar

Eins og fram kemur að framan er gert ráð fyrir tiltekinni verkaskiptingu stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnar Ljósleiðarans í því ferli sem fram undan er. Mótun þess er nú undirbúin í samstarfi þeirra og fyrirtækjaráðgjafar Arion banka, en bankinn hefur verið ráðinn til ráðgjafar og umsjónar í ferlinu.

Tengiliður:

Breki Logason
samskiptastjóri
698 5671