Horfur á lánshæfi Landsvirkjunar hækkaðar í jákvæðar


Matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur breytt horfum á lánshæfi Landsvirkjunar úr stöðugum í jákvæðar og staðfest BBB+ lánshæfiseinkunn fyrirtækisins.

Að mati S&P endurspeglar þessi jákvæða breyting á horfum þann árangur sem náðst hefur í að bæta fjárhagslegan styrkleika Landsvirkjunar og lækka skuldir. Aðrir jákvæðir þættir sem hafa áhrif á einkunnagjöf S&P eru stórbætt rekstrarafkoma félagsins, sterk sjóðsmyndun og hagkvæm endurnýjanleg orka. Einnig hafa breyttar horfur á lánshæfi ríkissjóðs Íslands áhrif, en í maí sl. breytti S&P horfum ríkissjóðs úr stöðugum í jákvæðar.

Samkvæmt S&P gæti lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar enn hækkað ef lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hækkar og ef sjóðstreymis-og skuldakennitölur Landsvirkjunar halda áfram að batna.

Hörður Arnarson forstjóri:

„Þetta eru góðar fréttir fyrir Landsvirkjun þar sem lánshæfismat félagsins skiptir verulegu máli á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þennan árangur má einkum rekja til skýrra rekstrarmarkmiða, endursamninga við flesta stærstu viðskiptavini okkar á síðustu árum og aukins fjárhagslegs styrkleika. Við gerum ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram á næstu árum.“ 

Nánari upplýsingar veitir Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs,

í síma 515-9000, netfang: rafnar@lv.is.