VÍS: Uppgjör 2. ársfjórðungs 2023


Umbreyting félagsins hafin

Uppgjör annars ársfjórðungs

Helstu lykiltölur 2F20232022
Hagnaður843 m.kr.  476 m.kr.
Afkoma af vátryggingasamningum183 m.kr.460 m.kr.
Afkoma af fjárfestingum1.195 m.kr.295 m.kr.
Samsett hlutfall97,2%92,4%
Ávöxtun fjáreigna3,0%1,1%


Helstu lykiltölur 6M20232022
Hagnaður1.072 m.kr.  549 m.kr.
Afkoma af vátryggingasamningum-460 m.kr.450 m.kr.
Afkoma af fjárfestingum2.254 m.kr.501 m.kr.
Samsett hlutfall103,6%96,2%
Ávöxtun fjáreigna5,7%1,9%






Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS:

„Þetta var tíðindamikill fjórðungur í starfsemi félagsins. Hluthafar VÍS samþykktu kaupin á Fossum fjárfestingarbanka með afgerandi hætti og SIV eignastýring hlaut starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem þýðir að umbreyting félagsins í fyrirtæki á fjármálamarkaði er hafin. Sala Kerecis til Coloplast voru stórtíðindi en VÍS er hluthafi í þessu farsæla nýsköpunarfyrirtæki. Hagnaður fjórðungsins nam 843 milljónum og samsett hlutfall var 97,2%.

Tækifæri í sameiningu

Nú liggur fyrir að VÍS verður fyrirtæki á fjármálamarkaði með víðtækar starfsheimildir og öfluga innviði fyrir framúrskarandi fjármálaþjónustu. Þetta er því mikil breyting á starfsemi félagsins. Margt hefur áunnist frá því stjórn kynnti áform sín um útvíkkun á starfsemi félagsins á aðalfundi VÍS fyrir tveimur árum. Hluthafar hafa nú samþykkt vegferð félagsins og búið er að leggja grunninn að nýrri samstæðu. Kaupin á Fossum fjárfestingarbanka voru háð fyrirvörum sem nú hefur öllum verið aflétt fyrir utan samþykki Fjármálaeftirlitsins. Sameiningin býður upp á spennandi tækifæri til vaxtar á trygginga- og fjármálamarkaði.

Góður liðsstyrkur

Við sögðum frá því nýlega að Brynjar Þór Hreinsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri sameinaðs félags VÍS og Fossa. Brynjar Þór mun bera ábyrgð á fjármálum samstæðu ásamt því að taka virkan þátt í viðskiptaþróun sameinaðs félags. Þá hefur Birgir Örn Arnarson verið ráðinn til þess að stýra áhættustýringu hjá VÍS og mun taka þátt í að móta hvernig áhættustýringu verður háttað hjá hinu sameinaða félagi. Ég fagna þessum góða liðsstyrk og hlakka virkilega til samstarfsins.

Áframhaldandi viðsnúningur í sölu

Undanfarin misseri höfum við blásið til sóknar og umbreytt fyrirkomulagi sölu hjá félaginu, en við höfum til dæmis alfarið hætt utanaðkomandi söluverktöku. Við erum að efla starfsemi okkar og þjónustu og höfum ráðið þjónustustjóra fyrir skrifstofur okkar á landsbyggðinni, sem ég hef mikla trú á að muni koma sterkir inn. Aukin sala hefur verið í líf- og sjúkdómatryggingum, sú mesta síðustu fimm ár. Salan heldur því áfram að aukast, bæði til  einstaklinga og fyrirtækja, og er í takt við markmið okkar. Ég er ánægð með þær breytingar sem hafa átt sér stað hjá félaginu því þær gefa góð fyrirheit um framhaldið.

Næsta skref í sókn félagsins
Svo er gaman að segja frá því að við erum á lokametrunum í þróun á nýju sjálfvirku söluferli trygginga, sem er næsta skref í sókn félagsins. Sjálfvirka söluferlið býður upp á sameiginlegt viðmót hjá starfsfólki og viðskiptavinum, sem gerir sölu trygginganna skilvirkari og kaupin auðveldari. Þetta er þægilegt og aðgengilegt  ̶  og einfalt að raða fjölbreyttum tryggingum í körfuna, líkt og við þekkjum hjá vefverslunum. Ég hlakka til að kynna þetta nánar.

Aukin umsvif í samfélaginu

Við sjáum skýr merki um aukin umsvif í samfélaginu með aukinni tjónatíðni. Mörg ökutækjatjón voru skráð í fjórðungnum sem og ferðatengd tjón, en það er í samræmi við aukna umferð og aukinn fjölda ferðamanna. Eitt stórtjón var í fjórðungnum, sem er tjón yfir 100 milljónir, og telur 1,6% af tjónahlutfalli tímabilsins.

Sala Kerecis stórtíðindi

Eignamarkaðir voru almennt þungir í fjórðungnum, en sala Kerecis til danska fyrirtækisins Coloplast voru stórtíðindi. Vænt söluvirði hlutar VÍS í Kerecis nemur um 2,8 milljörðum en upphaflega fjárfestingin í Kerecis nam um 245 milljónum. Fjárfestingartekjur í fjórðungnum námu rúmlega 1,3 milljörðum sem gerir 3,0% nafnávöxtun. Fjárfestingartekjur það sem af er ári eru um 2,5 milljarðar eða 5,7% nafnávöxtun.

Fyrstu sjóðir SIV eignastýringar stofnaðir

SIV eignastýring, dótturfélag VÍS , sem stofnað var á haustmánuðum 2022, hefur nú hlotið starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Stýring fjárfestingareigna VÍS hefur nú alfarið færst til félagsins. SIV eignastýring mun bjóða upp á sjóði fyrir almenning og fagfjárfesta  ̶  og hafa nú fyrstu sjóðirnir verið stofnaðir. Einnig verður boðið upp á stýringu á eignasafni viðskiptavina. Þetta eru spennandi sjóðir og nánari upplýsingar má finna á siveignastyring.is

VÍS er fyrirmyndarfyrirtæki í fimmta sinn

Við erum stolt af því að VÍS er eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR ársins 2023. Fimmtán efstu sætin í hverjum stærðarflokki fá viðurkenninguna fyrirmyndarfyrirtæki og er VÍS eitt þeirra. Þetta er í fimmta skiptið sem VÍS hlýtur þessa eftirsóttu nafnbót.“

Kynningarfundur

Kynningarfundur vegna uppgjörsins verður haldinn föstudaginn 11. ágúst, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3. Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri, mun kynna uppgjörið og svara spurningum. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi og nálgast má upptöku af honum á fjárfestasíðu félagsins. Þar verður einnig hægt að nálgast kynningarefni fundarins.   

Fjárhagsdagatal 

Þriðji ársfjórðungur  2023 ||  19. október 2023
Ársuppgjör 2023 || 14. febrúar 2024
Aðalfundur 2024 || 14. mars 2024

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 eða með netfanginu fjarfestatengsl@vis.is


Viðhengi



Attachments

VÍS - Samstæðuárshlutareikningur 30.6.2023 Afkomutilkynning 2F 2023