Síldarvinnslan: Uppgjör annars ársfjórðungs og fyrri árshelmings 2023



  • Bolfiskveiðar og -vinnsla hafa gengið vel á tímabilinu, áframhaldandi vinna við samþættingu við Vísi
  • Mjöl- og lýsismarkaðir sterkir og verð há
  • Erum að sjá birgðasöfnun í okkar efnahag, þar vega þungt loðnuafurðir fyrir Asíumarkað sem fara seinna en áður og hrogn í óvissu
  • Veiddum minna af kolmunna en áætlað var, flyst veiðin fram á haustið
  • Mikil framleiðsla á loðnuhrognum setti markaðinn á hliðina og verð hrundu
  • Heilt yfir hefur rekstur gengið vel á fjórðungnum

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins

  • Hagnaður tímabilsins á öðrum ársfjórðungi nam 13,2 m USD og 42,8 m USD á fyrri árshelmingi.
  • Rekstrartekjur námu 79,5 m USD á öðrum ársfjórðungi og 211,0 m USD á fyrri árshelmingi.
  • EBITDA var 21,1 m USD eða 26,5% á öðrum ársfjórðungi og 60,7 m USD eða 28,8% á fyrri árshelmingi.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 1.059,1 m USD og eiginfjárhlutfall var 55,9%.

Rekstur

Tekjur á öðrum ársfjórðungi námu 79,5 m USD og 211,0 m USD á fyrri árshelmingi samanborið við 67,1 m USD á öðrum ársfjórðungi 2022 og 167,7 m USD á fyrri árshelmingi 2022. Rekstrartekjur jukust þannig um 12,4 m USD á öðrum ársfjórðungi m.v. sama tímabil árið 2022, eða um 18,5%. Tekjuaukningin skýrist af því að rekstur Vísis ehf. kemur inn í tölurnar í ár.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi nam 21,1 m USD eða 26,5% af rekstrartekjum, en á öðrum ársfjórðungi 2022 var EBITDA 23,4 m USD eða 34,9% af rekstrartekjum. EBITDA dregst því saman um 2,3 m USD á milli tímabila. Á fyrri árshelmingi 2023 var EBITDA 60,7 m USD eða 28,8%. Til samanburðar var hún 55,8 m USD eða 33,3% á fyrri árshelmingi 2022.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 16,6 m USD samanborið við 22,5 m USD á öðrum fjórðungi 2022. Á fyrri árshelmingi var hagnaður fyrir tekjuskatt 53,0 m USD samanborið við 57,5 m USD á fyrri árshelmingi 2022. Tekjuskattur var 3,3 m USD og hagnaður annars ársfjórðungs 2023 nam því 13,2 m USD samanborið við 18,7 m USD hagnað annars fjórðungs 2022. Hagnaður á fyrri árshelmingi var því 42,7 m USD samanborið við 46,2 m USD á fyrri árshelmingi 2022.

Efnahagur

Heildareignir námu 1.059,1 m USD í lok júní 2023. Þar af voru fastafjármunir 869,0 m USD og veltufjármunir 190,1 m USD. Í lok árs 2022 námu heildareignir 1.059,8 m USD og þar af voru fastafjármunir 873,3 m USD og veltufjármunir 186,5 m USD.

Fastafjármunir dragast saman um 4,3 m USD. Veltufjármunir aukast um 3,6 m USD.

Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 592,5 m USD í lok júní 2023 og var eiginfjárhlutfall 55,9%. Samanborið nam eigið fé í lok árs 2022 alls 585,3 m USD og eiginfjárhlutfallið 55,2%.

Heildarskuldir og skuldbindingar félagsins voru 466,6 m USD og lækkuðu um 7,9 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 315,3 m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 10,3 m USD frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 29,7 m USD á fyrri árshelmingi 2023 en var 27,5 m USD á fyrri árshelmingi 2022. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 12,5 m USD og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 37,6 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 57,3 m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á öðrum ársfjórðungi og fyrri árshelmingi 2023

Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársfjórðungsins og fyrri árshelmings reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi tímabilsins (1 USD=139,9 kr) voru rekstrartekjur ársfjórðungsins 11,1 milljarður, EBITDA 3,0 milljarðar og hagnaður 1,8 milljarður. Fyrir árshelminginn námu rekstrartekjur 29,5 milljörðum, EBITDA 8,5 milljörðum og hagnaður 6,0 milljörðum. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 30. júní 2023 (1 USD=136,8 kr) námu eignir samtals 144,9 milljörðum, skuldir 63,8 milljörðum og eigið fé 81,1 milljarði.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutauppgjör fyrri árshelmings 2023 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 24. ágúst 2023. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur 24. ágúst 2023

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 24. ágúst klukkan 16:30. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á youtube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ/videos Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið fjarfestir@svn.is og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.

Frá forstjóra

Við erum að skila góðum rekstri á fjórðungnum, þrátt fyrir samdrátt á milli ára sem rekja má til minni afla og verðlækkana á loðnuhrognum.   Þá vegur bolfiskhlutinn þyngra með tilkomu Vísis inn í samstæðuna.

Erfiðlega hefur gengið að selja loðnuhrogn og ljóst að markaðir í Asíu eru þyngri en áður þegar kemur að loðnuafurðum, sem helgast af efnahagsástandi og miklu framboði. Sem dæmi vorum við að selja loðnuhrogn á milli 17 og 18 USD/kg fyrir ári síðan, en verðin eru í kringum 5-6 USD/kg í ár og eru hrognamarkaðir þungir.

Sein loðnuráðgjöf olli því að erfitt var að áætla og hámarka virði kvótans. Þegar fyrstu sex mánuðirnir eru skoðaðir sést að framleiddar mjöl- og lýsisafurðir eru mun lægri hlutfallslega en fyrir ári síðan. Lauslega áætlað má reikna með að bara verðmæti tapaðrar lýsisframleiðslu geti vegið um 6 milljörðum ísl. króna í útflutningstekjum fyrir þjóðarbúið.

Markaðir í Asíu hafa verið þyngri þegar kemur að loðnuafurðum sem helgast af efnahagsástandi og miklu framboði.

Veiðin á kolmunna flyst á milli fjórðunga en við eigum eftir að veiða um 20 þúsund tonnum af kolmunna, sem flyst yfir á haust en þá er meiri lýsisnýting og ódýrara að sækja fiskinn.

Bolfiskveiðar og -vinnsla eru mun umfangsmeiri en áður með tilkomu Vísis í samstæðuna og gekk vel þar á fjórðungnum. Aflabrögð hafa verið góð og vinnslurnar gengið vel. Afli hjá línubátunum hefur sjaldan verið betri en í vetur þó svo að veiðin hafi aðeins dregist saman á fjórðungnum eins og við má búast á þessu árstíma. Eyjaskipin hafa ekki verið í fullri nýtingu vegna samdráttar í kvótum. Gullver tók þátt í togararallinu í mars mánuði.

Sala á bolfiskafurðum hefur gengið þokkalega og góð hreyfing er á flestum afurðum. Sjófrystar afurðir inn á Bretland hafa lækkað í verðum en sala ferskra afurða hefur gengið vel. Við erum bjartsýn fyrir komandi jólavertíð á saltfiskmörkuðum.

Það eru enn miklar blikur á lofti í efnahagsmálum á mörgum af okkar helstu markaðssvæðum, sem skapar þrýsting á eftirspurn og verð. Vextir í heiminum halda áfram að hækka sem hefur leitt til hærri kostnaðar af lánum félagsins.

Ennfremur er stríðið í Úkraínu stöðug ógn sem ómögulegt er að spá fyrir um hvert mun leiða. Þrátt fyrir átökin þar er Úkraína okkur mikilvægt markaðssvæði og hefur sala þangað á loðnuafurðum og öðru verið umtalsverð og gengið vel.

Íslenska krónan hefur styrkst lítillega að undanförnu og óvissa ríkir um þróunina næstu mánuði en ljóst er að þrýstingur frá miklu innflæði er til staðar.

Dóttur- og hlutdeildarfélög samstæðunnar gera uppí mismunandi uppgjörsmyntum. Þannig myndast þýðingarmunur innan samstæðunnar. Í þessu uppgjöri vegur þyngst þýðingarmunur vegna hluta okkar í Arctic Fish, sem er tilkominn vegna veikingar NOK á móti USD um 9,3% á tímabilinu.

Við erum að hefja nýtt kvótaár sem eru alltaf spennandi tímamót og mikilvægt að setjast yfir úthlutun og gera áætlanir um veiði og vinnslu til næstu 12 mánaða. Óhætt er að segja að ráðgjöfin í þorski fyrir komandi ár veldur okkur vonbrigðum enda niðurskurður síðusta ára ekki að koma til baka.   Á móti kemur er ýsan að styrkjast sem kemur okkur vel, ennfremur eru jákvæðar fréttir af íslensku síldinni sem er mjög jákvætt fyrir okkur.

Þannig að heilt yfir förum við bjartsýn inní nýtt kvótaár.

Fjárhagsdagatal
2. Ársfjórðungur 2023 – 24. ágúst 2023
3. Ársfjórðungur 2023 – 23. nóvember 2023
Ársuppgjör 2023 – 7. mars 2024

Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri

Viðhengi



Attachments

Síldarvinnslan hf. - Uppgjörskynning 2. ársfj. 2023 SVN samstæða - árshlutareikningur Q2 2023