Kröftugur vöxtur Ljósleiðarans


Tekjur Ljósleiðarans á fyrri hluta árs 2023 námu tveimur milljörðum króna. Þær voru 11% meiri en árið á undan og fjórðungi meiri en fyrstu sex mánuði ársins 2021. Framlegð rekstursins hefur aukist að sama skapi og nam EBITDA 1.421 milljón króna á fyrstu sex mánuðum yfirstandandi árs. Hækkandi vaxtastig og aukin verðbólga setja þó ennþá mark sitt á heildarniðurstöðuna þar sem fjármagnskostnaður hefur aukist. Áform eru um breytta fjármagnsskipan með sölu á nýju hlutafé í Ljósleiðaranum. Tap á fyrri hluta ársins nam 248 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall er 38,5%.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi Ljósleiðarans ehf. vegna fyrstu sex mánaða ársins 2023, sem samþykktur var af stjórn félagsins í dag. 

Hlutafjáraukning undirbúin

Aukning hlutafjár Ljósleiðarans er í undirbúningi og er Arion banki Ljósleiðaranum og Orkuveitu Reykjavíkur, sem nú heldur á öllu hlutafé, til ráðgjafar og mun halda utan um söluferlið. Að baki í ferlinu eru meðal annars formlegar ákvarðanir af hálfu stjórna félaganna og eigenda OR. Sérstakar tilkynningar hafa verið sendar út í tengslum við söluferlið og verður svo áfram. Tímasetningu verður hagað eftir markaðsaðstæðum og gegnsætt söluferli kynnt opinberlega.

Nýtt hlutafé verður meðal annars nýtt til að greiða niður lán til uppbyggingar landshrings Ljósleiðarans. Hlutverk hans er að efla samkeppni með því að þjóna fjarskiptafyrirtækjum um gagnaflutninga, einkum í farsímakerfum þeirra. Helstu fjarskiptafyrirtæki landsins eru í viðskiptum við Ljósleiðarann og treysta á aukna flutningsgetu við uppbyggingu 5G farsímakerfanna. Þá eflir landshringur fjarskiptaöryggi innanlands og við útlönd.

Birna Bragadóttir, formaður stjórnar Ljósleiðarans:

„Við Ljósleiðarafólk stöndum á mjög spennandi tímamótum. Um leið og okkar hefðbundnu verkefni í fjárfestingum og rekstri ganga vel, erum við í senn að undirbúa að taka á móti nýjum meðeigendum OR að fyrirtækinu og nýjum framkvæmdastjóra. Vöxtur fyrirtækisins er kröftugur, framtíðartekjur traustar með langtímasamningum. Með breyttri fjárhagsskipan festum við Ljósleiðarann enn frekar í sessi sem þann valkost í grunnkerfum fjarskipta sem er nauðsynlegur heilbrigðri samkeppni á fjarskiptamarkaðnum hér á landi. Það eru því skemmtilegir og áhugaverðir tímar fram undan hjá Ljósleiðaranum.“

Um Ljósleiðarann

Ljósleiðarinn ehf. er fjarskiptafélag á heildsölumarkaði í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, stofnað árið 2007. Hlutverk Ljósleiðarans er stuðla að heilbrigðri samkeppni á fjarskiptamarkaði með því að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgang að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti.


Tengiliður:

Birna Bragadóttir
formaður stjórnar
516 7777

Viðhengi



Attachments

Árshlutareikningur Ljósleiðarans H1 2023