Hlutafjáraukning samþykkt og umboð veitt


Á hluthafafundi Ljósleiðarans ehf. í dag var eftirfarandi tillaga stjórnar félagsins um hlutafjáraukningu samþykkt og stendur hún í tengslum við yfirstandandi ferli hlutafjáraukningar, sbr. fyrri tilkynningar dags. 22.10.2022 og 2.5.2023.

„Hluthafafundur samþykkir að hækka hlutafé í Ljósleiðaranum ehf. um allt að  3.249.999.513 nýja hluti, sem hver og einn skal vera 1 króna að nafnverði eða um sem svarar til 33,33% hlutafjár félagsins eftir hækkunina. Skulu hinir nýju hlutir tilheyra sama flokki hlutafjár félagsins og það hlutafé þess sem fyrir er og skulu hinir nýju hlutir boðnir fjárfestum til áskriftar.  

Jafnframt er lagt til við hluthafafund að hlutafjáraukning í Ljósleiðaranum ehf. verði hafin á grundvelli þeirra forsendna og gagna sem nú liggja fyrir stjórn félagsins, stjórn OR og fyrri bókana stjórnar og eigenda OR. Endanleg afstaða til tilboða verður tekin á hluthafafundi að loknum samanburði þeirra. 

Stjórn félagsins skal ákvarða útboðsgengi og greiðslukjör hinna nýju hluta og í hvaða áföngum heimildin verður nýtt. Núverandi eigandi 100% hlutafjár Ljósleiðarans, Orkuveita Reykjavíkur, fellur frá forkaupsrétti sínum.  

Andvirði hlutafjárhækkunarinnar mun, er til kemur, verða nýtt til uppbyggingar rekstrar félagsins og uppgreiðslu skulda henni tengdri. Heimild stjórnar til að hækka hlutafé Ljósleiðarans ehf. verður tekin upp í samþykktir félagsins og gildir hún til loka árs 2024.“

Forsendur treystar

Frá því eigendur OR – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð – samþykktu hlutafjáraukninguna í vor, hefur stjórn OR unnið að því að treysta forsendur vandaðs og gagnsæs söluferlis. Það verður í höndum fyrirtækjaráðgjafar Arion banka. Á fundi í stjórn OR 31. maí sl.  samþykkti stjórn OR að „…farið verði að ráðgjöf Arion banka og stefnt að lokuðu útboði og langtíma fjárfestum sem tengjast almannahagsmunum og aðilum, sem hafi til að bera reynslu og þekkingu, sem nýtist Ljósleiðaranum sérstaklega, verði boðið að gera tilboð. Stefnt verði að dreifðu eignarhaldi meðal væntanlegra hluthafa. Megin markmið hlutafjáröflunarinnar er að afla hins nýja hlutafjár á sem hæstu verði og með eins opnum og gegnsæjum hætti og unnt er. Tillagan verði kynnt eigendasveitarfélögum áður en endanleg ákvörðun verður tekin.“

Sú kynning fór fram 15. júní sl. og mun forstjóri OR taka endanlega afstöðu til væntanlegra tilboða á hluthafafundi Ljósleiðarans, að fengnu umboði frá stjórn OR.

Sævar Freyr Þráinsson:

Sævar Freyr er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sem nú fer með allt hlutafé Ljósleiðarans:

„Við teljum að fjárfestar hafi trú á því kröftuga samkeppnisfyrirtæki sem Ljósleiðarinn er. Við höfum séð áhugann sem þeir hafa sýnt grænum skuldabréfum Ljósleiðarans og þar með trú þeirra á uppbyggingu fyrirtækisins en með traustum undirliggjandi rekstri mun fyrirtækið skila eigendunum arði. Nú leitum við að meðeigendum sem eru tilbúnir að takast á við áskoranir framtíðarinnar með okkur. Við þurfum að leggja nýjan landshring fjarskipta til að efla fjarskipta- og upplýsingaöryggi landsins. Tilkoma 5G krefst aukinnar gagnaflutningsgetu og við teljum að Ljósleiðarinn sé lykilaðili í að tryggja heilbrigða samkeppni á fjarskiptamarkaði hér á landi.

„Það er ánægjulegt hversu breið samstaða hefur verið á meðal eigenda Orkuveitunnar og innan stjórnar OR um að stækka hluthafahóp Ljósleiðarans í aðdraganda hlutafjáraukningarinnar. Við horfum til þess að til verði enn samkeppnishæfara félag sem boðið getur enn öflugri ljósleiðaratengingar fyrir íslensk heimili og atvinnulíf,“ segir Sævar Freyr. Hann bætir við að stjórn OR hafi rætt verkefnið á síðustu fundum, skilgreint leikreglur útboðsins þannig að þær verði vel ígrundaðar og fyrirfram ákveðnar.

Söluferli á nýju ári

Nú er nýlokið ráðningu nýs framkvæmdastjóra Ljósleiðarans. Einar Þórarinsson, reyndur stjórnandi úr hugbúnaðar- og tæknigeiranum, kemur til starfa 1. október næstkomandi. Þess er beðið að Samkeppniseftirlitið komist að niðurstöðu um kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar og gert er ráð fyrir að sjálft söluferli nýs hlutafjár í Ljósleiðaranum verði til lykta leitt á nýju ári.

Tengiliður:

Sævar Freyr Þráinsson
forstjóri OR
saevar.freyr.thrainsson@or.is