Festi hf.: Auglýsing frá tilnefningarnefnd um framboð til stjórnar Festi hf.


Tilnefningarnefnd Festi hf. auglýsir hér með eftir tilnefningum eða framboðum til stjórnar félagsins vegna aðalfundar Festi sem haldinn verður 6. mars næstkomandi.

Hlutverk tilnefningarnefndar er að undirbúa og gera tillögu um frambjóðendur við kjör stjórnar félagsins á aðalfundi. Skal að því stefnt að stjórnin sé á hverjum tíma þannig samsett að hún búi yfir fjölbreyttri þekkingu og reynslu sem nýtist félaginu við stefnumótun og eftirlit í því umhverfi sem félagið starfar í á hverjum tíma. Við gerð tillögu um kosningu stjórnarmanna í Festi skal tilnefningarnefndin horfa til hæfni, reynslu og þekkingar, m.a. með tilliti til leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja og niðurstöðu árangursmats stjórnar.

Stjórnarmenn þurfa jafnframt að fullnægja þeim skilyrðum sem fram koma í samþykktum félagsins og lögum um hlutafélög sbr. ákvæði 66. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Starfsreglur tilnefningarnefndar, samþykktir félagsins og önnur gögn eru aðgengileg á heimasíðu Festi.

Athygli er vakin á því að sérstök skilyrði eiga við um stjórnarmenn í Festi vegna sáttar félagsins við Samkeppniseftirlitið dags. 30. júlí 2018. Geta frambjóðendur kynnt sér skilyrðin á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins þar sem þau eru aðgengileg án trúnaðarupplýsinga.

Þess er óskað að tilnefningum eða framboðum sé skilað til tilnefningarnefndar á sérstökum eyðublöðum ásamt ferilskrá fyrir 21. janúar 2024 á netfangið tilnefningarnefnd@festi.is.

Nálgast má gögnin á www.festi.is/r/adalfundir