Reginn hf.: Niðurstöður aðalfundar Regins hf. 2024


Aðalfundur Regins hf. var haldinn þriðjudaginn 12. mars 2024 í fundarsalnum Kaldalón, í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, Austurbakka 2, 101 Reykjavík, fundurinn hófst klukkan 16:00.

     1.   Ársreikningur:
Aðalfundur samþykkti ársreikning félagsins vegna ársins 2023.

  1. Ákvörðun um greiðslu arðs og ráðstöfun hagnaðar félagsins á reikningsárinu 2023:

Aðalfundur samþykkti að ekki yrði greiddur arður á árinu 2024, en vísar að öðru leyti til ársreikningsins um ráðstöfun hagnaðar og aðrar breytingar á eiginfjárreikningum félagsins á árinu. Hagnaður af rekstri ársins 2023 verður fluttur til næsta reikningsárs.

  1. Tillaga félagsstjórnar um starfskjarastefnu:

Aðalfundur samþykkti framlagða starfskjarastefnu með meirihluta greiddra atkvæða.
Fyrir fundinn lagði Gildi-lífeyrissjóður fram bókun varðandi tillöguna sem sjóðurinn gerði grein fyrir á fundinum. Bókunin var færð inn í fundargerð í heild sinni, sem birt verður á vefsíðu félagsins.

  1. Tillaga um kaupréttarkerfi og heimild til hækkunar hlutafjár:

Lögð var fram tillaga stjórnar um að bæta við heimild í 3. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins vegna innleiðingu kaupréttarkerfis. Þar sem um breytingu á samþykktum var að ræða þurfti tillagan samþykki 2/3 hluta þess hlutafjár sem farið var með á fundinum. Meirihluti fundarmanna greiddi atkvæði með tillögunni en hún náði ekki tilskildu samþykki 2/3 hluta hlutafjár.

Fyrir fundinn lagði Gildi-lífeyrissjóður fram bókun varðandi tillöguna. Bókunin var færð inn í fundargerð í heild sinni, sem birt verður á vefsíðu félagsins.

  1. Ákvörðun um heimild til stjórnar um kaup á eigin bréfum:

Samþykkt var tillaga stjórnar um að veita heimild til að kaupa hlutabréf í félaginu þannig að það ásamt dótturfélögum þess eigi, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, allt að 10% af heildarhlutafé félagsins. Tilgangur kaupanna er að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun samkvæmt heimild í lögum um markaði fyrir fjármálagerninga nr. 115/2021, lögum um hlutafélög nr. 2/1995, eftir atvikum reglugerð nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik (viðauki), reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um markaðssvik nr. 596/2014, sem og framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 2016/1052, sbr. lög um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021.

  1. Breyting á samþykktum félagsins:

Viðauki við samþykktir félagsins vegna 5. dagskrárliðs var samþykktur.

Tillögur stjórnar um breytingar á ákvæðum 6., 14., 16. og 18. gr. samþykkta félagsins voru samþykktar.

  1. Kosning félagsstjórnar:

Eftirfarandi einstaklingar voru kjörin í aðalstjórn til næsta aðalfundar:

Benedikt Olgeirsson
Bryndís Hrafnkelsdóttir
Guðrún Tinna Ólafsdóttir
Heiðrún Emilía Jónsdóttir
Tómas Kristjánsson

  1. Kosning endurskoðanda:

Aðalfundur samþykkti að Deloitte ehf., Dalvegi 30, 201 Kópavogi, yrði kjörið endurskoðunarfyrirtæki félagsins í samræmi við tilmæli endurskoðunarnefndar til stjórnar um kjör ytri endurskoðanda.

  1. Tilnefning nefndarmanns í endurskoðunarnefnd

Aðalfundur samþykkti að Anna Þórðardóttir yrði tilnefnd í endurskoðunarnefnd félagsins.

  1. Kosning nefndarmanna í tilnefningarnefnd

Eftirfarandi aðilar voru sjálfkjörnir í tilnefningarnefnd félagsins:
Árni Gunnarsson
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Ína Björk Hannesdóttir

  1. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir næsta kjörtímabil:

Aðalfundur félagsins samþykkti eftirfarandi þóknun til stjórnarmanna, undirnefnda stjórnar og tilnefningarnefndar að fenginni breytingatillögu frá stjórn félagsins sem gengur skemur en tillaga sem var birt 19. febrúar sl.

Stjórnarformaður: 846.000 kr. á mánuði.
Meðstjórnendur:   423.000 kr. á mánuði.

Seta í undirnefndum stjórnar:
Nefndarmaður í starfskjaranefnd: 80.000 kr. á mánuði.
Nefndarmaður í endurskoðunarnefnd: 113.500 kr. á mánuði.
Formaður endurskoðunarnefndar: 180.000 kr. á mánuði.
Nefndarmaður í tilnefningarnefnd: 62.000 kr. á mánuði.
Formaður tilnefningarnefndar: 98.000 kr. á mánuði.

  1. Önnur mál:

Engin önnur mál voru tekin til afgreiðslu á fundinum.