Kvika banki hf.: Breyting í framkvæmdastjórn


Í kjölfar undirritunar á samningi um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. og fyrirséðra breytinga á samstæðu Kviku banka hf. („Kvika“ eða „bankinn“) í kjölfar sölunnar, hafa verið gerðar breytingar á starfsemi skrifstofu forstjóra.

Sigurður Viðarsson, aðstoðarforstjóri Kviku hefur komist að samkomulagi um starfslok hjá bankanum. Staða aðstoðarforstjóra verður í kjölfarið lögð niður og verkefni færast á aðra stjórnendur í bankanum.

Sigurður mun vera stjórnendum innan handar til að tryggja örugga samfellu í yfirfærslu verkefna innan bankans og sitja í stjórnum félaga innan samstæðu Kviku fram á haust.

Sigurður hóf störf sem forstjóri TM í október 2007 og var forstjóri TM samfellt frá árinu 2007 þar til hann tók við sem aðstoðarforstjóri Kviku í lok árs 2022.

Þá hefur Magnús Þór Gylfason, forstöðumaður samskipta og hagaðilatengsla einnig samið um starfslok sín hjá bankanum og staðan verður í kjölfarið lögð niður. Magnús mun áfram vinna með bankanum í ráðgjafarhlutverki.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku: 

„Ég vil nota tækifærið og þakka Sigurði Viðarssyni kærlega fyrir frábært samstarf í gegnum árin og fyrir hans mikilvæga framlag fyrir bankann. Sigurður hefur reynst öflugur stjórnandi og góður félagi.

Hann hefur á farsælan hátt leitt krefjandi breytingarferli í kjölfar samruna TM og Kviku og verið í forystuhlutverki í söluferli á TM. Sigurður hefur átt mjög farsælan feril sem forstjóri TM og síðar aðstoðarforstjóri Kviku.

Við viljum þakka Sigurði fyrir afar árangursríkt samstarf í gegnum árin og vel unnin störf og óskum honum alls hins besta og farsældar í framtíðarverkefnum. 

Þá verður einnig mikil eftirsjá af Magnúsi, sem mun þó áfram vera bankanum innan handar í ráðgjafarhlutverki. Ég óska honum alls hins besta í öðrum þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.”

Sigurður Viðarsson:

„Síðustu 17 ár hafa verið ótrúlega krefjandi og skemmtileg bæði hjá TM og Kviku. Ég skil afar sáttur við góða stöðu hjá Kviku og TM á þessum tímamótum. Framundan eru mikil tækifæri fyrir frekari vöxt og uppbyggingu bankans í kjölfar sölu á TM. Ég kveð Kviku og alla starfsmenn með söknuði og þakklæti en einnig tilhlökkun yfir því sem fram undan er.“