Síminn hf. - Afkoma annars ársfjórðungs 2024


Helstu niðurstöður úr rekstri á 2F 2024

  • Tekjur á öðrum ársfjórðungi (2F) 2024 námu 6.871 m.kr. samanborið við 6.283 m.kr. á sama tímabili 2023 og jukust um 9,4%. Tekjur af kjarnaþjónustum Símans, farsíma, gagnaflutningi og sjónvarpsþjónustu aukast um rúmlega 5% á milli tímabila. Rekstur yfirtekinna félaga á auglýsingamarkaði er að fullu inni í rekstri samstæðu á 2F og námu tekjur félaganna tæpum 400 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1.726 m.kr. á 2F 2024 og hækkar um 316 m.kr. eða 22,4%. EBITDA hlutfallið er 25,1% á 2F 2024 en var 22,4% á sama tímabili 2023. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 636 m.kr. á 2F 2024 samanborið við 362 m.kr. á sama tímabili 2023.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 320 m.kr. á 2F 2024 en námu 145 m.kr. á sama tímabili 2023. Fjármagnsgjöld námu 501 m.kr., fjármunatekjur voru 178 m.kr. og gengishagnaður nam 3 m.kr.
  • Hagnaður á 2F 2024 nam 244 m.kr. samanborið við 179 m.kr. hagnað á sama tímabili 2023.
  • Vaxtaberandi skuldir samstæðu að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 15,7 ma.kr. í lok 2F 2024, en voru 10,5 ma.kr. í árslok 2023. Stærstur hluti aukningarinnar skýrist af kaupum á félögum á auglýsingamarkaði. Handbært fé í lok 2F 2024 nam 1,6 ma.kr., en var 1,8 ma.kr. í árslok 2023. Staða útlána hjá Símanum Pay var 3,0 ma.kr. í lok 2F 2024 og jókst lítilsháttar á fjórðungnum.
  • Eiginfjárhlutfall Símans var 46,3% í lok 2F 2024 og eigið fé 18,3 ma.kr.

 

Orri Hauksson, forstjóri:

„Annar ársfjórðungur var viðburðaríkur og gæftasamur hjá Símanum. Tekjur, EBITDA og EBIT af grunnstarfsemi félagsins uxu með ásættanlegum hætti og við bættist einnig ný starfsemi á sviði umhverfisauglýsinga sem styrkti alla þessa þætti enn frekar. Mikil hreyfing var á fjarskiptamarkaði, sérstaklega í upphafi árs. Þannig gekk ný sala vel hjá Símanum en eins var talsvert um brottfall, sem nú hefur aftur dregið úr í kjölfar markvissra gagnaðgerða varðandi þjónustu og upplifun. Reiki erlendra ferðamanna var undir væntingum framan af helsta ferðamannatímabilinu en óx þegar leið á sumarið. Vel hefur gengið að stýra kostnaði félagsins í heild, sem er sérlega ánægjulegt þar sem stórir kostnaðarliðir Símans eru verðtryggðir og verðlag hefur almennt hækkað á árinu eins og þekkt er.

Síminn uppfærði viðmót sitt í sjónvarpi og færði til dæmis sýningar frá ensku úrvalsdeildinni í fótbolta inn í möppuform í Premium streymisvöru félagsins, sem gerir efnið aðgengilegra en fyrr. Á móti eru hefðbundnar sjónvarpsrásir á undanhaldi hjá Símanum eins og annars staðar í heiminum. Innan skamms verður sýnd ný hágæða alþjóðleg þáttaröð í Premium sem gerist á Íslandi. Ber hún nafnið Dimma og byggir á bók Ragnars Jónassonar, en þáttaröðin er unnin í samstarfi Símans við CBS og Paramount. Þá verða fleiri íslenskir þættir sýndir í haust, svo sem önnur þáttaröð um strákabandið IceGuys og barnaefnið Lubbi finnur málbein. Er Síminn þannig áfram það fyrirtæki á Íslandi sem framleiðir og sýnir langmest af nýju íslensku leiknu efni sem höfðar til allra aldurshópa.

Í júní síðastliðnum var tilkynnt að keppinautur Símans hefði tryggt sér sýningarréttinn á ensku úrvalsdeildinni frá og með keppnistímabilinu sem hefst haustið 2025 og nær rétturinn fram til vors 2028. Síminn verður þannig af tekjum að ári, en sparar sér einnig kostnað. Síminn hefur handsalað samkomulag um endursölu og dreifingu á efni sem inniheldur ensku úrvalsdeildina frá og með haustinu 2025. Tekjur munu lækka en áhrif á afkomu verða væntanlega ekki mikil, þó ljóst sé að fjárfestingar félagsins munu lækka verulega næstu árin.

Þann 8. júní sl. undirritaði Síminn samning um kaup á öllu hlutafé í Noona Iceland, sem heldur utan um innlendan rekstur Noona Labs. Í framhaldinu mun dótturfyrirtæki Símans, Síminn Pay, stýra sameiginlegum rekstri fyrirtækjanna á Íslandi ásamt því að þróa nýjar lausnir Símans Pay inni í vistkerfi Noona, viðskiptavinum til hagsbóta. Markmið Símans með kaupunum á Noona, einu öflugasta markaðstorgi Íslands, er að styrkja samstæðu Símans enn frekar sem leiðandi stafrænt þjónustufyrirtæki. Samkeppniseftirlitið hefur kaupin til umfjöllunar og gerum við ráð fyrir að þau klárist fyrir lok árs.

Á næstu dögum mun María Björk Einarsdóttir taka við sem forstjóri Símans en hún hefur starfað sem fjármálastjóri Eimskipafélagsins undanfarin ár. Sjálfur mun ég láta af störfum við komu Maríu, eftir tæplega ellefu ára starf. Ég vil þakka samstarfsfólki, viðskiptavinum, fjárfestum og öðrum samstarfsaðilum Símans fyrir ánægjulega samfylgd.“

 

Kynningarfundur 28. ágúst 2024

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 28. ágúst 2024 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Hluthafar, fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/fjarfestar/uppgjor-og-arsskyrslur.

Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni: https://www.siminn.is/fjarfestar/fjarfestakynning.

Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.

 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans (oskarh@siminn.is)

 

Viðhengi



Attachments

Síminn hf  - Afkomutilkynning 2F 2024 Síminn hf. - Fjárfestakynning 2F 2024 Síminn hf. - Árshlutareikningur samstæðu 2F 2024