Nýjar reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana


"Þessi tilkynning er aðgengileg á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is"

 

Seðlabanki Íslands hefur sett nýjar reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana. Markmiðið með lausafjárreglunum er eins og áður að draga úr lausafjáráhættu lánastofnana með því að stuðla að því að þær eigi ávallt laust fé til að mæta skuldbindingum við álagsaðstæður á tilteknu tímabili.

Lausafjárreglurnar eru byggðar á alþjóðlegum staðli Basel-nefndarinnar um bankaeftirlit eins og fyrri reglur Seðlabankans frá árinu 2013. Nýju reglurnar hafa ekki mikil áhrif á lausafjárkröfur sem gerðar eru til banka. Þær miða hins vegar að því að innleiða sömu skilgreiningar og framsetningu og hafa tekið gildi í Evrópusambandinu og eru að mestu leyti samhljóða reglum ESB. Í nýjum reglum Seðlabankans eru þó áfram gerðar sérstakar kröfur um lágmark lausafjárhlutfalls fyrir erlenda gjaldmiðla sem ekki er að finna í lausafjárreglum Evrópusambandsins.

Reglurnar eru settar á grundvelli 12. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001. Nýjar reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana nr. 266/2017 taka gildi hinn 31. mars 2017 og koma í stað eldri reglna nr. 1031/2014. 

Nánari upplýsingar veita Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Harpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri í síma 569 9600.