Alvotech semur við Advanz Pharma um markaðssetningu líftæknilyfjahliðstæðu við Xolair® (omalizumab)

Iceland, Germany, India, U.S.


  • Advanz Pharma fær rétt til að markaðssetja AVT23, fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu við Xolair® (omalizumab) á Evrópska efnahagssvæðinu, í Bretlandi, Sviss, Kanada, Ástralíu og á Nýja Sjálandi

Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag um samning við Advanz Pharma, um markaðssetningu AVT23, fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Xolair® (omalizumab). Samningurinn nær til Evrópska efnahagssvæðisins, Bretlands, Sviss, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands.

„Við hlökkum til að vinna með Advanz Pharma að markaðssetningu á þessu mikilvæga meðferðarúrræði við sjúkdómum í öndunarvegi,“ sagði Anil Okay, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Alvotech. „Þessi samningur er til marks um þá áherslu sem bæði fyrirtækin leggja á að auka aðgengi sjúklinga að hagkvæmari líftæknilyfjum um allan heim.“

Samkvæmt samningnum mun Alvotech sjá um þróun og framleiðslu en Advanz Pharma sér um skráningu og markaðssetningu lyfjanna. Heildarsala á frumlyfinu á þeim markaðssvæðum sem samningurinn nær til er um 140 milljarðar íslenskra króna á ári (1 milljarður Bandaríkjadala) samkvæmt gögnum frá IQVIA.

Um AVT23
Í febrúar 2022 tilkynnti Alvotech um samning við BiosanaPharma um sameiginlega þróun AVT23 (omalizumab). Omalizumab er einstofna mótefni sem binst við IgE og er notað til meðferðar við ofnæmisastma og langvinnri nef- og skútabólgu með sepageri í nefi. AVT23 er lyf í þróun og hefur ekki hlotið markaðsleyfi.

Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni og forstjóra fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,  Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.  Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).

Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson
alvotech.ir[at]alvotech.com