Kaldalón hf.: Niðurstöður hluthafafundar 2. nóvember 2023 og nánari upplýsingar um öfuga skiptingu hluta

Reykjavik, Iceland


Eftirfarandi tillögur voru lagðar fram fyrir hluthafafund Kaldalóns hf. („Kaldalón“ eða „félagið“), sem haldinn var að Grand Hóteli Reykjavík, þann 2. nóvember kl. 16:30.

Tillaga stjórnar um öfuga skiptingu

Á hluthafafundinum var samþykkt tillaga stjórnar Kaldalóns um öfuga skiptingu hluta (e. reverse share split) í félaginu, miðað við hlutfallið 10:1, sem felur í sér að hverjum tíu (10) hlutum í félaginu, þar sem hver hlutur er að nafnverði kr. 1, verði skipt í einn (1) hlut þannig að nafnverð hvers hlutar verði kr. 10. Var stjórn félagsins falið að ákveða nánari dagsetningar í ferlinu að höfðu samráði við fyrirtækjaskrá Skattsins og Kauphöllina.

Stjórn félagsins hefur nú, í samræmi við ákvörðun hluthafafundarins, ákveðið eftirfarandi dagsetningar í ferlinu:

  • Síðasti viðskiptadagur fyrir hina öfugu skiptingu verður 6. nóvember 2023
  • Fyrsti viðskiptadagur eftir hina öfugu skiptingu verður 7. nóvember 2023
  • Réttindadagur hinnar öfugu skiptingar (hin öfuga skipting mun miðast við hlutaskrá félagsins eins og hún verður í lok réttindadags) verður 8. nóvember

Í kjölfar hinnar öfugu skiptingar fer fjöldi hluta í félaginu úr 11.128.216.470 hlutum, hver að nafnvirði 1. kr. á hlut, í 1.112.821.647 hluti, hver að nafnvirði 10 kr. á hlut. ISIN-númer hlutabréfa í Kaldalóni mun jafnframt taka breytingum samhliða hinni öfugu skiptingu og verður fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf félagsins á nýju ISIN-númeri þann 7. nóvember.

Til þess að fjöldi hluta félagsins verði deilanlegur með tíu (10) þegar hin öfuga skipting á sér stað hefur stjórn félagsins nýtt sér heimild samkvæmt grein 2.4 í samþykktum til þess að hækka hlutafé félagsins um eina (1) krónu – úr kr. 11.128.216.469 í kr. 11.128.216.470 að nafnverði – á genginu 1,60 kr. á hlut. Var hluturinn gefinn út til Hvanna ehf., dótturfélags Kaldalóns, samhliða greiðslu fyrir hlutinn með reiðufé.

Hluthafar í Kaldalóni munu sjálfkrafa eignast nýjan og lægri fjölda hluta í félaginu í hlutfalli við eignarhlut sinn í lok réttindadags. Þurfa þeir ekkert að aðhafast sérstaklega í því sambandi.

Hvað varðar þá hluthafa sem í lok réttindadags eiga ekki fjölda hluta í félaginu í heiltölu skal eignarhaldið á þeim brotum af hlutum, sem viðkomandi hluthafar eiga, („umframhlutirnir“) færast frá viðkomandi hluthöfum til félagsins í lok réttindadags öfugu skiptingarinnar. Félagið skal fela þriðja aðila, sem hefur til þess tilskilin leyfi, að annast sölu á umframhlutunum fyrir hönd félagsins og skal söluandvirði umframhlutanna skipt hlutfallslega á milli viðkomandi hluthafa sem eiga til þess rétt.

Að öðru leyti vísast um framkvæmd öfugu skiptingarinnar til greinargerðar með áðurnefndri tillögur stjórnar til hluthafafundar félagsins, dags. 2. nóvember síðastliðins.

Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins

Eftirtaldar tillögur um breytingar á samþykktum félagsins voru samþykktar samhljóða:

  • Grein 2.1 skal eftirleiðis vera svohljóðandi:

„Hlutafé félagsins er kr. 11.128.216.470. Hlutaféð skiptist 1.112.821.647 hluti, hver að nafnvirði tíu (10) krónur eða margfeldi þeirrar fjárhæðar, sem hluthafar eiga í félaginu á hverjum tíma. Hlutafé félagsins tilheyrir allt einum flokki hlutafjár.

  • Grein 2.2 skal eftirleiðis vera svohljóðandi:

 „Stjórn félagsins er heimilt að gefa út áskriftarréttindi að allt að 27.000.000 nýjum hlutum í félaginu. Stjórn er jafnframt heimilt í fimm ár, til 16. desember 2026, að framkvæma nauðsynlega hlutafjárhækkun í tengslum við áskrift nýrra hluta á grundvelli áskriftarréttindanna. Stjórn ákveður hverjir fái rétt til áskriftar að nýjum hlutum en hvorki hluthafar né aðrir njóta forgangsréttar. Stjórn ákveður söluverð áskriftarréttindanna og nánari skilmála þeirra. Áskriftarréttindi sem gefin eru út samkvæmt heimild þessari skulu seld á gangvirði samkvæmt verðmati frá óháðum sérfróðum aðila.

  • Grein 2.3 skal eftirleiðis vera svohljóðandi:

„Stjórn félagsins er heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að 33.000.000 nýja hluti, en þó þannig að hækkun nemi ekki meira en 3% af útgefnum hlutum í félaginu, til þess að efna skuldbindingar gagnvart starfsmönnum félagsins vegna kaupréttar- eða kaupsamninga og/eða samninga um áskriftarréttindi við starfsmenn, til samræmis við starfskjarastefnu félagsins. Hækkunarheimild samkvæmt þessu gildir til 23. mars 2028. Hluthafar skulu ekki hafa forgangsrétt að nýjum hlutum, útgefnum samkvæmt ákvæði þessu. Sömu ákvæði um réttindi hluta og kveðið er á um í þessum samþykktum að öðru leyti gilda um nýja hluti vegna þessarar hækkunar og bera nýir hlutir réttindi í félaginu frá og með ákvörðun stjórnar um útgáfu þeirra, þó aldrei fyrr en hlutir eru að fullu greiddir. Stjórn félagsins er heimilt að breyta samþykktum þessum í samræmi við það sem leiðir af hlutafjárhækkun.

  • Grein 2.4 skal eftirleiðis vera svohljóðandi:

„Stjórn félagsins er heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að 327.797.349 nýja hluti. Stjórn skal ákveða gengi nýrra hluta. Hækkunarheimild samkvæmt þessu gildir til 25. maí 2027. Hluthafar skulu ekki hafa forgangsrétt að nýjum hlutum, útgefnum samkvæmt ákvæði þessu, heldur skal stjórn heimilt að selja þá fjárfestum. Sömu ákvæði um réttindi hluta og kveðið er á um í þessum samþykktum að öðru leyti gilda um nýja hluti vegna þessarar hækkunar og bera nýir hlutir réttindi í félaginu frá og með ákvörðun stjórnar um útgáfu þeirra, þó aldrei fyrr en hlutir eru að fullu greiddir. Hina nýju hluti skal greiða fyrir með reiðufé, hlutafé og/eða með kröfum samkvæmt hvers konar skuldaviðurkenningum, þ.m.t. lánssamningum, eftir því sem stjórn ákveður hverju sinni. Stjórn félagsins er heimilt að breyta samþykktum þessum í samræmi við það sem leiðir af hlutafjárhækkun.

  • Grein 2.5 var felld úr gildi.
  • Grein 3.3 skal eftirleiðis vera svohljóðandi:

„Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:      

  1. Skýrsla stjórnar um rekstur og starfsemi félagsins síðastliðið rekstrarár;

  2. Staðfesting ársreiknings félagsins fyrir næstliðið rekstrarár;

  3. Ákvörðun um hvernig skuli fara með hagnað eða tap félagsins á næstliðnu rekstrarári;

  4. Kosning stjórnar og varamanna í stjórn félagsins;       

  5. Kosning endurskoðanda eða endurskoðunarfélags;   

  6. Ákvörðun um þóknun stjórnarmanna félagsins og undirnefnda;          

  7. Samþykkt starfskjarastefnu félagsins;             

  8. Kosning þriggja fulltrúa í tilnefningarnefnd;

  9. Samþykkt starfsreglna tilnefningarnefndar félagsins, ef við á;                

  10. Önnur mál.“ 
  • Grein 4.3 var felld úr gildi.

Nánari upplýsingar eru veittar í gegnum netfangið kaldalon@kaldalon.is.