2007


Góð afkoma á rekstri Lánasjóðs sveitarfélaga

Lánasjóður sveitarfélaga ohf er lánafyrirtæki og starfar eftir lögum um
fjármálafyrirtæki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins (FME). Helstu
niðurstöður úr ársreikningum sjóðsins í m.kr. eru: SJÁ VIÐHENGI 

Afkoma 2007

Afkoma sjóðsins árið 2007 er nokkuð betri en væntingar stóðu til og reyndist
tekjuafgangur 1.219 m.kr. á móti 1.195 m.kr. árið áður. Góð afkoma á aðallega
skýringu í áframhaldandi háum vöxtum á innlendum markaði, en eignir sem
samsvara eigin fé sjóðsins eru að mestu bundnar í verðtryggðum útlánum. Ávöxtun
á lausu fé var einnig ágæt. 
 
Meginhlutverk sjóðsins er að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og
fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum. Útborguð langtímalán á árinu 2007 voru
4.047 m.kr. miðað við  9.099 m.kr. á fyrra ári. Skammtímalánveitingar sjóðsins
námu hinsvegar 5.840 m.kr. ár árinu en voru hverfandi á fyrra ári. Aðstæður til
töku langtímalána, bæði verðtryggðra og gengistryggðra, voru að mörgu leyti
óhagstæðar á árinu og kusu margir lántakendur að fjármagna sig til skemmri tíma
og fresta þannig langtímalántöku. 

Sjóðurinn hefur ekki tapað útláni frá því að hann hóf starfsemi árið 1967 og
engin vanskil voru í árslok 2007. Sveitarfélögin bera ekki ábyrgð á
skuldbindingum sjóðsins, en tryggingar fyrir útlánum hans eru í tekjum
sveitarfélaga skv. 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. einnig
reglugerð um tryggingar Lánasjóðs sveitarfélaga í tekjum sveitarfélags nr.
123/2006. 

Eigið fé í árslok 2007 var 10.048 m.kr. á móti 8.829 m.kr. árið áður. Vegið
eiginfjárhlutfall, svonefnt CAD-hlutfall, var í árslok 2007 112,3% en þarf að
vera 8% skv. lögum um fjármálafyrirtæki. 

Breytt rekstrarform

Í desember 2006 voru samþykkt á Alþingi ný lög um stofnun opinbers hlutafélags
um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Lögin gera ráð fyrir að stofnað verði
hlutafélag um rekstur lánasjóðsins í eigu íslenskra sveitarfélaga. Með lögunum
var útlánastarfsemi sjóðsins einnig formlega takmörkuð við verkefni sem hafa
almenna efnahagslega þýðingu. 
 
Stofnfundur félagsins var haldinn 23. mars 2007 þar sem m.a. var samþykkt að
nafnverð hlutafjár skyldi vera 5.000.000.000 kr. Að fengnu starfsleyfi frá FME
yfirtók Lánasjóður sveitarfélaga ohf. rekstur Lánasjóðs sveitarfélaga sem þar
með var lagður niður. Hluthafar í félaginu eru öll sveitarfélögin 79 talsins.

Reykjavíkurborg er stærst þeirra með 17,5% hlut og hefur fengið leyfi FME til
að fara með virkan eignarhlut í félaginu. 

Með breyttu félagsformi er ársreikningurinn nú lagður fram samkvæmt alþjóðlegum
reikningsskilastöðlum - IFRS. Þetta á einnig við um samanburðarfjárhæðir fyrir
árið 2006. Áhrif breyttra reikningsskilaaðferða á afkomu og efnahag sjóðsins
eru óveruleg, en gerð er grein fyrir þeim í skýringu 26 í ársreikningnum. 

Framtíðarhorfur

Gert er ráð fyrir að rekstur sjóðsins á árinu 2008 verði með svipuðu sniði og á
árinu 2007. Aðstæður á erlendum lánsfjármörkuðum gætu þó haft áhrif á möguleika
sjóðsins til að koma til móts við lánsfjárþörf sveitarfélaganna á árinu. 

Lánasjóðurinn mun að öðru leyti starfa í meginatriðum eins og undanfarin ár þar
sem stefnt hefur verið að eflingu á starfsemi hans og aukinni þjónustu við
sveitarfélögin með því að nýta gott lánstraust sjóðsins til að útvega
sveitarfélögunum lánsfé á hagstæðum kjörum. 

Nánari upplýsingar veitir: Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri, s. 515
4900.

Attachments

afkomutilkynning 2007.pdf arsreikningur 2007.pdf