Landsbankinn hyggst selja allt að 5% eignarhlut í Marel hf.


Landsbankinn hf. hefur ákveðið að bjóða til sölu allt að 5% eignarhlut í Marel hf.  Um er að ræða þegar útgefin bréf í Marel, sem eru í eigu Landsbankans, en alls heldur Landsbankinn nú á 6,84% eignarhlut í Marel.

Markaðsviðskipti Landsbankans hafa umsjón með sölu hlutanna, sem mun fara fram í útboði þar sem notuð er undanþáguheimild frá útgáfu lýsingar, í samræmi við heimild í c-lið, 1. töluliðar, 1. málsgreinar 50. greinar laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Lágmark hvers tilboðs er 100.000 hlutir að nafnverði í Marel, en lágmarksgengi í útboðinu verður 138 krónur á hlut og hámarksgengi verður 142 krónur á hlut.

Útboðinu verður þannig háttað að öll samþykkt tilboð bjóðast tilboðsgjöfum á sama verði.  Lægsta samþykkta verð ræður söluverðinu.  Nánari útboðsskilmálar, ásamt tilboðseyðublöðum, verða aðgengilegir hjá Markaðsviðskiptum Landsbankans eftir lokun viðskipta í Kauphöll í dag, mánudag.

Tekið verður við tilboðum frá og með þriðjudeginum 13. mars 2012 kl. 10:00 (GMT), en tilboðsfrestur rennur út miðvikudaginn 14. mars 2012 kl. 16:00 (GMT).  Niðurstöður útboðsins verða birtar í Kauphöll að loknu útboði.

 

Nánari upplýsingar veita:

Helgi Þór Arason, forstöðumaður Markaðsviðskipta Landsbankans.  Sími: 410 7335

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Markaða og Fjárstýringar Landsbankans.  Sími: 410 7313