Ársreikningur Landsnets hf. 2015

Hagnaður ársins 4 milljarðar króna - niðurgreiðsla skulda 7 milljarðar


Helstu atriði ársreiknings:

  • Rekstrartekjur námu 16.183 mkr. árið 2015 á móti 14.350 mkr. árið áður sem er 12,8% hækkun og skýrist af hagstæðri gengisþróun.
     
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 7.491 mkr. samanborið 6.174 mkr. árið áður. Hækkunin er um 1.317 mkr. á milli ára og skýrist einnig af hagstæðri gengisþróun.
     
  • Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 4.010 mkr. á árinu 2015 samanborið við 3.762 mkr. hagnað á árinu 2014.
     
  • Greiddar voru niður langtímaskuldir umfram reglulegar afborganir sem nam um 6.895 mkr.
     
  • Lausafjárstaða félagsins er sterk, handbært fé í lok árs nam 8.072 mkr. og handbært fé frá rekstri á árinu nam 8.113 mkr.
     
  • Á árinu voru rekstrarfjármunir félagins endurmetnir samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum en rekstrarfjármunir voru síðast endurmetnir á árinu 2008.

 

 

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri:

„Rekstur Landsnet gekk vel árið 2015, þrátt fyrir nokkuð erfiðar aðstæður og tjón af völdum óveðurs. Hagnaður var ríflega fjórir milljarðar króna á móti tæplega 3,8 milljörðum árið 2014. Hagnaður fyrir fjármagnsliði hækkaði um 1,3 milljarða króna milli ára og skýrist að langmestum hluta af hagstæðri gengisþróun. Meirihluti tekna félagsins er í dollurum og staða hans sterk. Þá var ráðist í niðurgreiðslu skulda upp á sjö milljarða króna á árinu til draga úr fjármagnskostnaði. Jákvæð þróun er í rekstrarumhverfi Landsnets með nýrri reglugerð sem tryggir tekjustofn fyrirtækisins til framtíðar. Í framtíðinni verður rekstur fyrirtækisins gerður upp í Bandaríkjadölum (USD) sem metinn hefur verið starfrækslugjaldmiðill félagsins. Það skapar tækifæri til að fjármagna Landsnet á hagstæðari lánakjörum en félagið hefur búið við til þessa og draga úr rekstraráhættu. Árið 2015 er því það síðasta sem ársreikningur félagsins er birtur í íslenskum krónum.

Rekstrarfjármunir Landsnets voru endurmetnir á árinu. Endurmat á eignastofni félagsins eykur gagnsæi í rekstrinum og er verðmæti fastafjármuna Landsnets nú í samræmi við verðlagsbreytingar, mat á kostnaði við endurbyggingu kerfisins og eignastofn sem Orkustofnun notar til að ákvarða tekjuramma félagsins. Þetta er fyrsta endurmatið á eignum Landsnets frá árinu 2008, þegar stjórn félagsins tók ákvörðun um að það skyldi gert með reglubundnum hætti, en vegna óvissu um arðsemiskröfu hefur endurmat ekki farið fram fyrr en nú.

Á 10 ára afmæli Landsnets á síðasta ári fór félagið í gegnum stefnumótum með það að markmiði að tryggja enn betur aðgengi almennings og fyrirtækja að öruggu rafmagni, ná betri sátt um uppbyggingu flutningskerfisins og hagræðingu í rekstrinum. Þetta er sérlega mikilvægt í ljósi þess að framundan eru framkvæmdir með fjárfestingum upp á milljarða króna, m.a. á Norðausturlandi, Reykjanesi og í Hafnarfirði, sem og styrking flutningskerfisins á næstu árum. Endurskoðun á framkvæmdastefnu félagsins hefur þegar skilað árangri og veruleg hagræðing náðist t.d. í tveimur stærstu verkefnum liðins árs, Fitjalínu 2 og Hellulínu 1 og stóðust endurskoðaðar tíma- og kostnaðaráætlanir í þeim báðum."

 

 

Frekari upplýsingar veitir:

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála, sími 563 9311 eða netfang gudlaugs@landsnet.is


Attachments

Ársreikningur Landsnets 2015.pdf Landsnet fréttatilkynning.pdf