Meðhöndlun hlutdeildareignar í fjármálafyrirtæki við útreikning á gjaldþolshlutfalli og gjaldþolskröfu

Leiðrétting á gjaldþolshlutfalli samstæðu VÍS í lok þriðja ársfjórðungs 2017


Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) hefur endurskoðað aðferð við útreikning á gjaldþoli og gjaldþolskröfu samstæðu VÍS í samræmi við ákvæði 1. og 2. tölul. 68. gr. afleiddrar reglugerðar (ESB) 2015/35, sbr. 51. gr. reglugerðar nr. 585/2017 um vátryggingastarfsemi. Samkvæmt því skal draga frá gjaldþoli andvirði hlutdeildareignar í fjármálafyrirtæki sem nemur yfir 10% af gjaldþolsliðum stafliða a. i,ii,iv og vi í 69. gr. reglugerðar 2015/35. Breytingin felst í því að allur eignarhlutur VÍS í Kviku banka hf. er dreginn frá gjaldþoli og sú áhætta sem honum fylgir er ekki reiknuð inn í gjaldþolskröfu. Af þessu leiðir að gjaldþolshlutfall VÍS í lok þriðja ársfjórðungs 2017 er 1,41 í stað 1,49 eins og það var reiknað í árshlutauppgjöri þriðja ársfjórðungs 2017, sem félagið birti hinn 25. október 2017.

VÍS hefur í tengslum við heildarendurskoðun á fjárfestingastefnu sinni unnið að breytingum á eignasafni félagsins. Sú vinna hófst á fjórða ársfjórðungi 2017 og hefur haft í för með sér hækkun á gjaldþolshlutfalli. Upplýsingar um gjaldþolshlutfall samstæðu VÍS í árslok 2017 liggja ekki fyrir en þær verða birtar með ársuppgjöri samstæðu VÍS 2017 hinn 28. febrúar n.k. Forstjóri mun  skýra nánar frá framangreindri breytingu í kynningu á ársuppgjöri. 

Nánari upplýsingar veitir Andri Ólafsson samskiptastjóri í síma 660-5105.