Ríkisútvarpið ohf., kt. 600307-0450, Efstaleiti 1, 150 Reykjavík (RÚV) og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, kt. 711297-3919, Engjateigi 11, 105 Reykjavík (LSR), hafa orðið sammála um skilmálabreytingu á skuldabréfum í skuldabréfaflokki með auðkennið RUV 00 1, ISIN númer IS0000006393, sem útgefin voru þann 1. október 2000 af RÚV, upphaflega að fjárhæð samtals 2.250.000.000 kr., með 46 jöfnum greiðslum afborgana og vaxta á sex mánaða fresti. Lánið er verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og er upphafsvísitala lánsins 183,7. Upphaflegur lokagjalddagi var 1. október 2023. LSR er eigandi alls skuldabréfaflokksins.
Með skilmálabreytingu þann 30. mars 2015 var skilmálum skuldabréfa í skuldabréfaflokknum breytt þannig að tilteknar greiðslur voru höfuðstólsfærðar og lánstími lengdist þannig að lokagjalddagi varð 1. apríl 2025 í stað 1. október 2023. 1. apríl 2018 voru óverðtryggðar eftirstöðvar höfuðstóls 1.139.527.957 kr.
Nú hafa RÚV og LSR komist að samkomulagi um að vextir verði lækkaðir, samhliða því sem höfuðstóll er hækkaður og lánstími er lengdur, sbr. nánar eftirfarandi skilmálabreytingar á skuldabréfum í skuldabréfaflokki með auðkennið RUV 00 1:
Frá 1. apríl 2018, skulu fastir ársvextir vera 3,5% í stað 5% jafnframt því sem að höfuðstóll lánsins þann 1. apríl 2018 er hækkaður þannig að jafngreiðslur (annuity) af láninu haldist óbreyttar. Nánar tiltekið þýðir þetta að óverðtryggðar eftirstöðvar höfuðstóls hækka um 61.513.499 kr., fara úr 1.139.527.957 kr. í 1.201.041.456 kr.
Af svo breyttum höfuðstól reiknast 3,5% fastir ársvextir frá 1. apríl 2018 til lokagjalddaga, sem skal vera 1. október 2057 í stað 1. apríl 2025.
Næsti gjalddagi er 1. október 2018, og fara greiðslur eftirleiðis fram á 6 mánaða fresti til lokagjalddaga til samræmis við skilmála skuldabréfanna, alls 79 greiðslur. Hver greiðsla, afborgun og vextir án verðtryggingar, er því 28.173.400 kr. þar sem lánstími hefur verið lengdur. Lánið er áfram verðtryggt samkvæmt upprunalegum skilmálum þess. Miðað við vísitölu 1. apríl 2018, 449,5, er greiðsla með verðtryggingu alls 68.938.179 kr.
RÚV er heimilt að greiða upp skuld, að fullu eða að hluta, samkvæmt skuldabréfunum án kostnaðar eftir 1. apríl 2025.
Ekki er um neina samningsvanefnd að ræða. Önnur ákvæði skuldabréfaflokksins skulu vera óbreytt.
Þess ber að geta að unnið er að því í samráði við LSR að skuldabréfaflokkurinn verði tekinn úr viðskiptum á skipulögðum verðbréfamarkaði og skráður af aðalmarkaði Kauphallar Íslands.
Viðhengi