Source: Hagar hf.

Vegna samruna Haga hf., Olíuverzlunar Íslands hf. og DGV ehf.

Þann 8. mars sl. tilkynntu Hagar um afturköllun samrunatilkynningar vegna samruna Haga, Olíuverzlunar Íslands (Olís) og DGV. Ný samrunatilkynning, með uppfærðum tillögum að skilyrðum, var send inn í kjölfarið og hófst frestur Samkeppniseftirlitsins til meðferðar málsins að líða 28. mars sl.

Högum hefur nú borist frummat um hina nýju samrunatilkynningu. Þar kemur fram það frummat eftirlitsins að Hagar hafi ekki sýnt fram á að framboðin skilyrði nægi til að leysa úr öllum þeim samkeppnislegu vandamálum sem annars leiði af samrunanum. Þykir Samkeppniseftirlitinu því ekki unnt að fallast á framkomna tillögu félagsins að sátt vegna málsins.

Hagar vinna nú að því að koma athugasemdum við frummatið á framfæri og eftir atvikum veita Samkeppniseftirlitinu frekari upplýsingar með það að markmiði að ná sátt um samrunann. Málinu getur því enn lokið með setningu skilyrða fyrir samrunanum eða ógildingu hans.

Kaupsamningurinn er sem fyrr segir háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, gagnvart öllum framboðnum skilyrðum, og því verður ekki gengið frá viðskiptunum fyrr en afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir.


Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., í síma 530-5500.