Source: Eik fasteignafélag hf.

Eik fasteignafélag hf.: Nýjar áherslur treysta tekjugrundvöll Eikar fasteignafélags hf.

Eik fasteignafélag hf. stefnir á að nýta betur þau tækifæri sem felast í eignasafni félagsins um leið og stefnt er að sókn á nýja markaði.

Í tengslum við það hefur stjórn Eikar haft til skoðunar hvaða tækifæri til tekjuöflunar umfram hefðbundnar leigutekjur felast í núverandi eignasafni. Til að fylgja þessari stefnu eftir hafa verið gerðar breytingar á skipuriti félagsins og svið viðskiptaþróunar stofnað samanber fréttatilkynningu í Kauphöll þann 26. febrúar 2018. Sandra Hlíf Ocares hefur verið ráðin í nýja stöðu sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, en sviðinu er ætlað að byggja upp starfsemi í fasteignum félagins og þjónustu við viðskiptavini. Með útvíkkun á starfsemi Eikar verður til nýr tekjustofn og betra samband næst við viðskiptavini, sem er hagur beggja aðila.

Þá hefur Eik fasteignafélag undirritað áskriftarsamkomulag um þátttöku í breska framtakssjóðnum (e. private equity) NW1 UK Logistics LP með tilteknum fyrirvörum þar sem félagið skuldbindur sig til þess að leggja sjóðnum allt að 10.000.000 GBP. Eigið fé sjóðsins getur orðið allt að 55.000.000 GBP. Stefnt er að því að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði að öllu jöfnu á bilinu 40-45%.

Meðfjárfestar Eikar verða alþjóðlegir fjárfestar, en bresku fjárfestingarfyrirtækin NW1 Partners UK LLP og Marchmont Investment Management verða rekstraraðilar framtakssjóðsins ásamt því að vera meðfjárfestar. Eik fasteignafélag mun hafa tækifæri til að sitja alla fjárfestingaráðsfundi ásamt því að hafa aðkomu að tilteknum ákvörðunum um kaup. 

„Við höfum haft fjárfestinguna í Bretlandi til skoðunar um nokkurt skeið. Með þessu fjárfestingarfyrirkomulagi tekur félagið rökrétt og varfærið skref til að þroskast inn á erlenda markaði með sérfræðinga á breskum fasteignamarkaði sér við hlið. Samstarfið gefur félaginu gott tækifæri til tengslamyndunar, stuðlar að aukinni áhættudreifingu á efnahagsreikningi félagsins og býður uppá frekari vöxt á nýjum markaði. Með þátttöku á þessu fjárfestingarformi í stað þess að fjárfesta beint í fasteignum á eigin vegum takmarkar félagið áhættu sína verulega ásamt því að halda stofnkostnaði í lágmarki,“ segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags.

Stefna NW1 UK Logistics LP er að fjárfesta í lagerhúsnæði í Bretlandi. Stefnt er að því að um 50–70% af fjármunum sjóðsins verði fjárfest í London með fókus á staðsetningar í og við M25 hraðbrautina og að um 30–50% verði í öðrum stærstu borgum Bretlands. Markmið sjóðsins er að nýta breytingar sem eru að eiga sér stað á verslunarhegðun á heimsvísu. Hlutur netverslunar, verslunarformsins „pantað og sótt“  (e. „click & collect“), og skemmri afhendingartíma úr vöruhúsum, hefur aukist gríðarlega undanfarin misseri.  

Fjárfestingartímabil NW1 UK Logistics LP er allt að 24 mánuðir og eignarhald og þróunartími allt að 72 mánuðir. Samanlagður líftími sjóðsins er því allt að 8 ár. Grunnmarkmið um ávöxtun (e. IRR, Internal Rate of Return) eftir kostnað er 9–11% í pundum. Fyrirkomulagið er í takt við hefðbundið framtakssjóðafyrirkomulag þar sem Eik mun verða félagi með takmarkaða ábyrgð (e. limited partner).

Stefna stjórnar Eikar fasteignafélags er að allt að 5% af eignasafni félagsins geti verið staðsett erlendis. Með því nær félagið að viðhalda vexti, draga úr áhættu með aukinn dreifingu eignasafnsins, auka þekkingu á öðrum mörkuðum og mynda tengsl við erlenda ráðgjafa og fjárfesta.

Á næstu mánuðum verður boðað til hluthafafundar hjá Eik fasteignafélagi þar sem lögð verður fyrir tillaga um stofnun tilnefningarnefndar. Hlutverk nefndarinnar verður að tilnefna frambjóðendur til stjórnarsetu í félaginu. Samhliða verða lagðar fram tillögur um lítilsháttar útvíkkun á tilgangsákvæði félagsins til að gera félaginu betur kleift að fylgja þessum áherslum betur eftir. Áskriftarfyrirkomulagið í breska framtakssjóðunum er undirritað með fyrirvara um breytingar á tilgangi félagsins og endanlegt samþykki stjórnar.

Farið verður yfir meðfylgjandi kynningu á uppgjörsfundi félagsins sem haldinn verður þann 31. ágúst n.k. klukkan 8:30 í fundarherberginu Hvammur á Grand Hótel Reykjavík, Sigtúni 38.

Að rekstri NW1 UK Logistics LP koma:
NW1 Partners – www.nw1partners.com
Marchmont Investment Management – www.marchmont-im.com

Um Eik fasteignafélag www.eik.is:
Eik fasteignafélag hf. er íslenskt hlutafélag stofnað árið 2002. Samstæða félagsins samanstendur af móðurfélaginu, Eik fasteignafélagi hf., ásamt fimm dótturfélögum sem öll eru í 100% eigu móðurfélagsins. Starfsemi félagsins er eignarhald, útleiga og rekstur á atvinnuhúsnæði. Félagið hefur frá stofnun starfað á íslenskum fasteignamarkaði með atvinnuhúsnæði. Félagið á atvinnuhúsnæði í helstu viðskiptakjörnum höfuðborgarsvæðisins sem og á völdum svæðum á landsbyggðinni. Í dag samanstendur eignasafn Eikar af yfir 100 fasteignum sem telja um 300.000 útleigufermetra, með yfir 450 leigutaka.

Frekari upplýsingar veitir Garðar Hannes Friðjónson, forstjóri Eikar fasteignafélags hf.,
í síma 861-3027 og tölvupósti:
gardar@eik.is