Helstu niðurstöður úr rekstri 2F 2018
- Tekjur á öðrum ársfjórðungi (2F) 2018 námu 7.153 milljónum króna samanborið við 7.254 milljónir króna á sama tímabili 2017. Leiðrétt fyrir seldri starfsemi eru tekjur nánast óbreyttar á milli ára.
- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.216 milljónum króna á 2F 2018 samanborið við 2.191 milljónir króna á sama tímabili 2017 og hækkar því um 25 milljónir króna eða 1,2% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 31,0% fyrir annan ársfjórðung 2018 en var 30,2% á sama tímabili 2017.
- Hagnaður á 2F 2018 nam 853 milljónum króna samanborið við 790 milljónir króna á sama tímabili 2017.
- Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.118 milljónum króna á 2F 2018 en var 1.986 milljónir króna á sama tímabili 2017. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1.768 milljónum króna á 2F 2018 en 1.864 milljónum króna á sama tímabili 2017.
- Vaxtaberandi skuldir námu 17,9 milljörðum króna í lok 2F 2018 en voru 18,4 milljarðar króna í árslok 2017. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 17,7 milljarðar króna í lok 2F 2018 og eru óbreyttar frá árslokum 2017.
- Hrein fjármagnsgjöld námu 190 milljónum króna á 2F 2018 en voru 258 milljónir króna á sama tímabili 2017. Fjármagnsgjöld námu 240 milljónum króna, fjármunatekjur voru 52 milljónir króna og gengistap var 2 milljónir króna.
- Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 60,8% í lok 2F 2018 og eigið fé 36,5 milljarðar króna.
Orri Hauksson, forstjóri:
„Við erum ánægð með áframhaldandi rekstrarbata samstæðunnar á öðrum ársfjórðungi. Framlegð eykst lítillega miðað við fyrra ár og rekstrarkostnaður heldur áfram að þokast niður. Niðurstaðan batnar þannig á fyrri árshelmingi í heild.
Reikitekjur og umferð í farsíma voru heldur lægri í vor en í upphafi árs. Sjónvarp, internet og upplýsingatækni áttu hins vegar prýðis fjórðung. Þá er sérstaklega ánægjulegt að minnast á árangur Þrennunnar sem gekk mjög vel á fjórðungnum. Við sjáum þar sífellt fleiri unga viðskiptavini koma til Símans í farsímaviðskipti. Sveiflur í fjarskiptatekjum innan ársins hafa minnkað undanfarin ár með breyttu vöruframboði og sjónvarpsvörur félagsins eru nú eftirsóttar allan ársins hring, einnig um hásumar. Á þriðja ársfjórðungi kynntum við nýja lausn til leiks, Sjónvarps Símans fyrir alla, sem mun tryggja að allir landsmenn geta nálgast áskriftarþjónustu Símans óháð neti. Dótturfyrirtæki Símans skiluðu einnig jákvæðri niðurstöðu þar sem tekjur af þjónustu Sensa í upplýsingatækni jukust frá fyrri fjórðungi, en þær sveiflast iðulega innan árs. Míla náði góðum árangri í að ná stórum nýjum viðskiptum.
Framkvæmdastigið í landinu er hátt um þessar mundir og fjárfestingar samstæðunnar á tímabilinu eru umtalsverðar, ekki síst í innviðum sem duga munu áratugum saman. Uppbygging á ljósleiðara Mílu á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram og nú er áherslan á að deila kostnaði með Gagnaveitu Reykjavíkur þar sem því er komið við. Til viðbótar er Míla að opna á nýjar ljósleiðaratengingar víða um land þar sem verklegar framkvæmdir fara fram. Eftir að hafa náð toppi á síðasta ári lækka heildarfjárfestingar samstæðunnar hins vegar rólega frá og með þessu ári.
Undanfarin ár hefur áherslan í rekstri verið að einfalda samstæðuna, fækka vörum og auka sjálfvirkni. Einingum hefur verið spyrt saman með hagkvæmari hætti en fyrr og aðgerðum er útvistað sem ekki teljast til kjarnastarfsemi. Við innleiddum persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins í vor og geta viðskiptavinir samstæðunnar nú með hraðvirkari hætti fengið til sín þær upplýsingar um sig sem til eru hér innanhúss. Kröfuharðir íslenskir neytendur vilja geta afgreitt sig sem mest sjálfir og fá fyrirsjáanlega og skýra reikninga. Við höfum treyst í sessi verkefni sem lúta að upplifun viðskiptavinarins með sérstöku verkefnateymi um stafræna þróun. Þar mun samstarf okkar við hinn alþjóðlega fjarskiptarisa Telefonica veitir okkur góða leiðsögn í nokkrum lykil langtíma stefnumiðum okkar, svo sem að fækka þjónustusímtölum enn frekar, halda áfram að auka stöðugleika kerfa og lækka kostnað við tæknirekstur.“
Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:
Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550-6003 (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans s. 550-6003 (oskarh@siminn.is)
Viðhengi