Fyrirkomulag fyrirhugaðs útboðs Icelandair Group hf.


Á hluthafafundi Icelandair Group hf. þann 30. nóvember 2018 var samþykkt tillaga um heimild stjórnar til að hækka hlutafé um allt að 625 milljónir króna að nafnverði. Stjórn Icelandair Group hefur ákveðið að nýta ekki heimild sína til þess að halda útboð í desember 2018 fyrir allt að 499 milljónir króna að nafnvirði, sbr. fyrri lið þeirrar tillögu sem samþykkt var á hluthafafundinum. Þess í stað er stefnt að einu útboði, með forgangsréttarfyrirkomulagi, þar sem boðið verður hlutafé að nafnverði allt að 625 milljónir króna fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2019. Í aðdraganda útboðsins verður birt lýsing. Stjórn mun ákvarða stærð útboðsins, útboðsgengi, greiðslukjör hinna nýju hluta og aðra skilmála útboðs.

Tilgangur Icelandair Group með hlutafjáraukningunni er að styrkja enn frekar efnahag félagsins til að vera í stakk búið að vaxa og grípa tækifæri sem kunna að opnast í núverandi rekstrarumhverfi en félagið mun fá afhentar sex nýjar Boeing MAX flugvélar á árinu 2019. Ekki er þörf á að hlutafjáraukning fari fram fyrir næstkomandi áramót miðað við þær forsendur sem liggja fyrir um rekstur og efnahag félagsins og kynntar voru á nýliðnum hluthafafundi. Með fyrirhugaðri framkvæmd er gert ráð fyrir að meiri vissa muni ríkja um samkeppnisumhverfi félagsins auk þess sem tími gefst til að veita ítarlegri upplýsingar til hluthafa fyrir útboðið.

Nánari upplýsingar veitir:
Bogi Nils Bogason, forstjóri
Sími: 50 50 300 eða netfang: bogi@icelandairgroup.is