Ársreikningur Landsnets hf. fyrir árið 2018



Sterk staða og áframhaldandi stöðugleiki

Ársreikningur Landsnets 2018 var samþykktur á fundi stjórnar í dag 15. febrúar 2019.

Helstu atriði ársreikningsins: 

  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 61,1 milljónum USD (7.102,2 millj.kr.)1  samanborið við 59,3 milljónir USD (6.902,8 millj.kr) árið áður. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði er því mjög sambærileg á milli ára.
  • Hagnaður nam 37,1 milljónum USD (4.319,8 millj.kr) á árinu 2018 samanborið við 28,0 milljónir USD (3.258,8 millj.kr.) hagnað á árinu 2017.
  • Lausafjárstaða félagsins er sterk, handbært fé í lok árs nam 38,8 milljónum USD og handbært fé frá rekstri á árinu nam 70,4 milljónum USD.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri segir árið 2018 hafi verið ár stöðugleika í rekstri fyrirtækisins.

„Það er ánægjulegt að sjá að rekstur ársins var samkvæmt  áætlun og hagnaður meiri en áður. Ársreikningurinn endurspeglar þær áherslur sem fyrirtækið hefur sett sér en undanfarin ár hefur markviss vinna átt sér stað í að auka stöðugleika í rekstrarumhverfi félagsins ásamt hagræðingu í ferlum og verklagi hjá félaginu.  Árangur hagræðingarinnar mun koma enn betur í ljós á næstu árum.

Eftirspurn eftir orku er sífellt að aukast og á síðasta ári var meira magn orku flutt eftir kerfinu en nokkru sinni áður. Heildarflutningur var um 19 terawattstundir, sem er aukning um rúm 3% á milli ára. Framundan er gert ráð fyrir enn frekari aukningu á orkuflutningi og einnig stefnir fyrirtækið í viðamiklar framkvæmdir á árinu til að mæta eftirspurninni. Áætlað er að framkvæma fyrir um 90 milljónir USD á árinu 2019.

Það er áskorun að takast á við stór og viðamikil verkefni án þess að koma þurfi til  hækkunar gjaldskrár og geta um leið uppfyllt vaxandi kröfur um öryggi og framkvæmdahraða. Auk áskorana Landsnets er mikilvægt að stjórnvöld hugi að einföldun regluverks skipulags og leyfisveitinga framkvæmda.“ 


Rekstrarreikningur

  • Rekstrartekjur námu 154,1 milljónum USD árið 2018 á móti 147,3 milljónum USD árið áður. Félagið hefur þrjú megin tekjustreymi, tekjur af stórnotendum, tekjur af dreifiveitum og sölu á flutningstöpum og kerfisþjónustu.
    • Tekjur af flutningi til stórnotenda jukust um 4,1 milljón USD á milli ára en megin ástæða þess var aukning í flutningi.
    • Tekjur af flutningi til dreifiveitna jukust um 2,8 milljónir USD á árinu. Megin skýring var hækkun gjaldskrár til dreifiveitna í ágúst 2017 sem kemur að fullu inn í reksturinn 2018. Þá jukust tekjur vegna skerðanlegs flutnings um 0,7M.  
    • Tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og orkutapa stóðu nánast í stað á milli ára. Gjaldskrá fyrir þessa þjónustu er sett á kostnaðargrunni með 1,5% álagi. Á árinu 2018 var gjaldskrá fyrir flutningstöp og kerfisþjónustu ákvörðuð á grundvelli útboða fyrir hvern ársfjórðung og tók breytingum í takt við niðurstöður útboða. 
  • Rekstrargjöld hækka um 5,1 milljón USD á milli ára en þar af er hækkun á innkaupum á kerfisþjónustu og töpum um 1,7 milljónir USD sem skýrist af hærra innkaupaverði.
  • Afskriftir hækka um 1,2 milljónir USD, laun um 0,9 milljónir USD og annar rekstrarkostnaður um 1,3 milljónir USD.
  • Í rekstri nam veiking krónunnar gagnvart bandaríkjadal á milli ára um 1,5%. Í heild hefur veikingin óveruleg áhrif á rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði.
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 61,1 milljónum USD samanborið við 59,3 milljónir USD árið áður og hækkar um 1,8 milljón USD á milli ára.
  • Hrein fjármagnsgjöld nema samtals 15,0 milljónum USD en voru 24,4 milljónir USD á árinu 2017. Hrein fjármagnsgjöld lækka um 9,4 milljónir USD á milli ára sem skýrist að mestu af gengisáhrifum en á árinu var gengishagnaður af lánasafni 3,3 milljónir USD á móti 5,6 milljóna USD gengistapi á árinu 2017.
  • Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 37,1 milljónum USD á árinu 2018 samanborið við hagnað að fjárhæð 28,0 milljónum USD á árinu 2017 og liggur breytingin á milli ára að megninu til í fjármagnsliðum og áhrifum af íslensku krónunni.
  • EBITDA félagsins var 90,7 milljónir USD (10.550,5 millj.kr.) á árinu 2018  í samanburði við 87,8 milljónir USD (10.216,3 millj.kr.) árið áður.

Efnahagsreikningur og sjóðstreymi

  • Heildareignir félagsins í árslok námu 846,3 milljónum USD samanborið við 851,3 milljónir USD í lok árs 2017.
  • Heildarskuldir námu í árslok 476,0 milljónum USD samanborið við 514,3 milljónir USD í lok árs 2017.
  • Lausafjárstaða félagsins er sterk. Í lok árs nam handbært fé 38,8 milljónum USD og  handbært fé frá rekstri á árinu nam 70,4 milljónum USD
  • Eiginfjárhlutfall í árslok var 43,8% samanborið við 39,6% árið áður.


Horfur í rekstri

Áætlanir félagsins fyrir árið 2019 gera ráð fyrir 34,6 milljóna USD hagnaði af rekstri félagsins. Í tekjuáætlun er byggt á þeim magn- og verðbreytingum sem félagið hefur vitneskju um. Kostnaðaráætlun er byggð á raunkostnaði við rekstur félagsins að teknu tillliti til þeirra viðmiða sem ákvörðun tekjumarka felur í sér. Áætlanir félagsins um framkvæmdir á árinu liggja í um 86 milljónum USD. Enn er óvissa tengd einhverjum þeirra verkefna sem lítur að leyfisveitingum og kærum. Á árinu verður áfram unnið að breytingum á lánasafni í takt við stefnu stjórnar með það að markmiði að fjármagna framkvæmdir næstu ára, lengja í afborgunarferlum og afla hagstæðari kjara.

Um ársreikninginn

Ársreikningur Landsnets hf. 2018 er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Uppgjör Landsnets er í bandaríkjadölum (USD), sem er starfrækslugjaldmiðill félagsins. Ársreikningurinn var samþykktur á fundi stjórnar 15. febrúar 2019.

Um Landsnet

Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.


Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is


Nánar á www.landsnet.is  þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.


1 Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 116,33


Viðhengi


Attachments

Landsnet fréttatilkynning_ársreikningur_2018_ Ársreikningur Landsnets 2018