Hagar hf.: Breyting á framkvæmdastjórn


Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri Olíuverzlunar Íslands ehf. (Olís), hefur óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu og hafa hann og stjórn gengið frá samkomulagi þar að lútandi. Jón mun starfa áfram sem framkvæmdastjóri þar til ráðið hefur verið í hans stað og verður stjórn og nýjum framkvæmdastjóra til ráðgjafar eftir því sem þörf verður á.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga:
„Jón Ólafur á að baki farsælan feril við störf fyrir Olíuverzlun Íslands eða allt frá árinu 1995.  Hann hóf störf sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Olís en tók við starfi forstjóra árið 2014.  Það er óhætt að segja að Jón hafi haft afgerandi og góð áhrif á rekstur Olís á miklu uppbyggingar- og breytingarskeiði sem síðasti aldarfjórðungur spannar og verður hans saknað sem góðs félaga af vinum og samstarfsfólki hjá Olís og í samstæðu Haga. Fyrir hönd stjórnar Olís og Haga færi ég honum okkar bestu þakkir fyrir gott samstarf og mikilvægt framlag til félagsins. Um leið óska ég honum velfarnaðar á þessum tímamótum og í því sem hann mun taka sér fyrir hendur.“

Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri Olíuverzlunar Íslands:
„Það hefur verið ögrandi og um leið skemmtilegt verkefni að fá að vera við stjórntaumana í svo rótgrónu og traustu fyrirtæki sem Olís er.  Félagið hefur gengið í gegnum miklar breytingar á þeim árum sem ég hef starfað hjá því og því borið gæfu til að vera í fararbroddi varðandi nýjungar og breytingar á eldsneytis- og þægindamarkaði.  Framundan eru ögrandi en skemmtilegir tímar með áskorunum sem ég veit að félagið er tilbúið að mæta með samhentum hópi starfsmanna. Mér er efst í huga þakklæti til alls þess góða fólks sem ég hef starfað með og átt viðskipti við í gegnum árin hjá Olís.“


Nánari upplýsingar veitir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, fo@hagar.is