Uppskipting rekstrar og stofnun dótturfélaga
Í kjölfar ákvörðunar stjórnar Skeljungs um að hefja einkaviðræður við tiltekinn kaupendahóp vegna P/F Magn og í samræmi við tilkynningu frá 11. ágúst sl. um að setja tilteknar fasteignir félagsins í formlegt söluferli, hefur stjórn Skeljungs ákveðið að skerpa enn frekar á áherslum í rekstri með stofnun tveggja nýrra og sjálfstæðra dótturfélaga. Þessi félög verða:
- Félag fyrir starfsemi á einstaklingssviði: Starfsemi þess félags verður einkum á sviði þjónustu til einstaklinga svo sem, rekstur þjónustustöðva Orkunnar, Extra, 10-11, Löðurs bílaþvottastöðva, apóteka Lyfsalans og Lyfjavals, rekstri á Gló og ýmsum fasteignum tengdum framangreindum rekstri. Þá mun félagið halda á eignarhlutum í Brauð & Co ehf. og Wedo ehf. (Heimkaup).
- Félag fyrir starfsemi fyrirtækjasviðs: Starfsemi þess félags verður einkum sala og þjónusta við fyrirtæki, dreifing og innkaup á eldsneyti, smurolíum, hreinsi- og efnavörum, áburði sem og öðrum vörum og þjónustuþáttum til fyrirtækja. Þjónusta og sala til stórnotenda, í útgerð, flugi og verktöku verður einnig hluti af starfseminni ásamt fasteignum tengdum framangreindum rekstri. Þá mun félagið halda á eignarhlutum í Íslenska Vetnisfélaginu ehf., EAK ehf., Barki ehf. og fleiri tengdum félögum.
Áður hafði verið tilkynnt um stofnun félags utan um rekstur og útleigu á birgðastöðvum í eigu Skeljungs.
Skeljungur hf. verður móðurfélag ofangreindra rekstrarfélaga, og munu verkefni þess í auknum mæli snúa að stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum, auk annarra fjárfestinga eftir atvikum. Ráðgert er að Skeljungur hf. verði áfram skráð félag á markaði.
Hluthafafundur framundan
Í ljósi ofangreinds og annarra væntra breytinga er tilkynntar hafa verið á markaði, mun stjórn Skeljungs boða til hluthafafundar í félaginu, þar sem eftirtalið verður m.a. á dagskrá fundarins, auk annarra mála er stjórn telur nauðsynlegt að fá afstöðu hluthafafundar til:
- Heimild til sölu á dótturfélagi Skeljungs hf., P/F Magn;
- Heimild til uppskiptingu rekstrar og stofnun dótturfélaga í samræmi við ofangreint;
- Tillaga að breytingu á tilgangi félagsins í samþykktum þannig að aukin áhersla verði lögð á stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingastarfsemi;
- Heimild til að hefja endurkaup á eigin bréfum félagsins með tilboðs fyrirkomulagi.
Stjórn mun gera nánari grein fyrir ákvörðunum sínum og tillögum í fundarboði til hluthafafundar ásamt greinargerð með hverri tillögu.
Árni Pétur Jónsson, forstjóri:
„Í samræmi við áherslur og stefnumótunarvinnu félagsins hafa ýmsar veigamiklar breytingar á rekstri félagsins átt sér stað á undanförnum misserum, m.a. stofnun einstaklingssviðs, kaup á Dælunni og Löðri, einkaviðræður um sölu á dótturfélagi okkar P/F Magn, fyrirætlanir um sölu á tilteknum fasteignum í eigu Skeljungs og aukna þátttöku í rekstri apóteka en félagið mun eignast meirihluta í Lyfsalanum. Þessar breytingar eru afrakstur vinnu við mótun nýrrar stefnu félagsins um að sækja fram og nýta tækifæri á markaðnum til sóknar. Við teljum stofnun þessara dótturfélaga vera mikilvægan þátt í að skerpa áherslur þeirra tækifæra sem félagið býr yfir.“
Nánari upplýsingar veitir Árni Pétur Jónsson, forstjóri, fjarfestar@skeljungur.is
https://www.linkedin.com/company/skeljungur-hf/