Marel 2F 2022: Met í pöntunum, EBIT framlegð undir væntingum, verð- og kostnaðaraðgerðir til að bæta rekstrarafkomu komnar til framkvæmda


Marel kynnir afkomu annars ársfjórðungs 2022 (allar upphæðir eru í evrum).

Samantekt 

  • Met í mótteknum pöntunum þriðja ársfjórðunginn í röð. Pantanabók og pípan af nýjum verkefnum sterk, drifin áfram af nýsköpun og aukinni nálægð við viðskiptavini.
  • Rekstrarframlegð undir væntingum, aukinn rekstrarkostnaður vegna hárrar verðbólgu og áskorana tengdum aðfangakeðju ásamt hægari tekjuvexti en vænt var.
  • Markmið um EBIT framlegð endurskoðuð í 14-16% í lok árs 2023 í stað 16% áður, í ljósi umróts í aðfangakeðjum og alþjóðlegu efnahagsumhverfi.
  • Gert er ráð fyrir bættri rekstrarafkomu á síðari helmingi ársins. Til að lækka kostnað hefur sú ákvörðun verið tekin að fækka starfsmönnum félagsins um 5% á heimsvísu, auk þess sem ráðist hefur verið í aðgerðir til að draga úr töfum í aðfangakeðju. Hærri tekjuvöxtur og virk verðstýring á vörum Marel munu leiða til betri kostnaðarþekju á næstu ársfjórðungum.

Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs 2022 (2F22):

  • Pantanir námu 471,8 milljónum evra (1F22: 421,7m, 2F21: 371,3m).
  • Pantanabókin stóð í 774,5 milljónum evra (1F22: 619,1m, 2F21: 499,1m).
  • Tekjur námu 397,3 milljónum evra (1F22: 371,6m, 2F21: 327,5m).
  • EBIT1 nam 25,0 milljónum evra (1F22: 31,3m, 2F21: 38,6m), sem var 6,3% af tekjum (1F22: 8,4%, 2F21: 11,8%), jákvæð áhrif af yfirtökum í fjórðungnum.
  • Kaupin á Wenger og Sleegers höfðu jákvæð áhrif á mótteknar pantanir í fjórðungnum (16,9 milljónir evra), tekjur (12,7 milljónir evra) og pantanabók (80,9 milljónir evra).
  • Hagnaður nam 9,6 milljónum evra (1F22: 21,7m, 2F21: 23,3m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 1,27 evru sent (1F22: 2,87 evru sent, 2F21: 3,14 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 18,4 milljónum evra (1F22: 32,7m, 2F21: 77,9m).
  • Frjálst sjóðstreymi var neikvætt sem nam 7,9 milljónum evra (1F22: 14,6m, 2F21: 54,6m), vegna lægri EBITDA framlegðar og uppbyggingu birgða.
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA2) var 3,8x í lok júní (1F22: 1,2x, 2F21: 0,8x), eftir kaupin á Wenger. Áhersla lögð á að ná aftur markmiði félagsins um fjármagnsskipan sem er að halda skuldahlutfalli milli 2-3x nettó skuldir/EBITDA.

Hálfsársuppgjör 2022 (2H22):

  • Pantanir námu 893,5 milljónum evra (1H21: 740,7m).
  • Tekjur námu 768,9 milljónum evra (1H21: 661,5m).
  • EBIT1 nam 56,3 milljónum evra (1H21: 76,6m), sem var 7,3% af tekjum (1H21: 11,6%).
  • Hagnaður nam 31,3 milljónum evra (1H21: 44,5m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 4,14 evru sent (1H21: 5,95 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 51,1 milljónum evra (1H21: 138,1m).
  • Frjálst sjóðstreymi nam 6,7 milljónum evra (1H21: 100,1m).

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Viðburðaríkur ársfjórðungur er að baki þar sem við sjáum ný met í pöntunum sem koma inn á hærri verðum en áður sem styður við markmið um aukna framlegð á næstu fjórðungum. Pantanir námu 472 milljónum evra, á sama tíma eru 397 milljónir evra í tekjur með 6,3% EBIT framlegð sem er óviðunandi.  

Eins og fram kom í tilkynningu okkar til kauphallar í síðustu viku, höfum við þegar gripið til aðgerða til að lækka kostnaðargrunn félagins með 5% fækkun starfsfólks. Ákvörðun sem þessi er alltaf erfið og við munum gera okkar besta til að styðja við þá starfsmenn sem frá hverfa.  

Í núverandi umhverfi verðbólgu, skorts á hæfu vinnuafli og síbreytilegrar kauphegðunar á matvælum er Marel í einstakri stöðu til að styðja við matvælaiðnaðinn með hátækni- og hugbúnaðarlausnum sem leiða til meiri sjálfvirkni, öryggis og rekjanleika. Við höfum staðið við markmið okkar um stöðuga nýsköpun, frá ári til árs, og tókum meðvitaða ákvörðun í miðjum heimsfaraldri um að færa okkur nær viðskiptavinum okkar um heim allan með fjölgun starfsmanna í sölu- og þjónustu. Sömuleiðis höfum við lagt áherslu á að hitta fjölmarga viðskiptavini okkar á stærstu vörusýningum fyrir alifugla-, kjöt og fiskiðnaði í fjórðungnum og undirstrika leiðandi stöðu okkar á markaðnum með því að kynna til leiks yfir 25 nýjar hátæknilausnir. Sölu- og markaðskostnaður í fjórðungnum var því hár, eða 14% af tekjum en mun færast aftur í átt að 12% markmiði okkar.

Við höfum hækkað verð á undanförnum fjórðungum. Eftir á að hyggja vorum við of sein að hækka verð þegar verðbólgan fór af stað á síðasta ári. Engu að síður endurspegla metpantanir nú, sem komu inn á nýrri verðlagningu, og áframhaldandi eftirspurn hversu sterkt vörumerki Marel er. Samkeppnisstaða félagsins er sterk í umhverfi lituðu af hækkandi verðbólgu sem knýr áfram spurn eftir frekari sjálfvirknivæðingu og sjálfbærri nýtingu hráefna.  

Í ljósi umróts í aðfangakeðjum og alþjóðlegu efnahagsumhverfi höfum við endurskoðað markmið okkar um EBIT framlegð í 14-16% í lok árs 2023 í stað 16% áður.  Aðgerðaáætlun um virka verðstýringu, bætta framleiðni og skilvirkni í innkaupum er komin í framkvæmd. Virk verðstýring, að meðtöldum þegar fram komnum verðhækkunum, mun styðja við hækkun á tekjugrunni. Við vinnum nú að endurbótum á rekstrarmódeli okkar til að gera okkur enn betur í stakk búin að skapa sveigjanlegan vaxtargrundvöll með sjálfbærum kostnaðargrunni. Þetta felur í sér þegar tilkynntar fjárfestingar í sjálfvirkni og stafrænum lausnum í framleiðslu okkar, aðfangakeðju og þjónustu auk áframhaldandi hagræðingar á stoðsviðum. Hækkun framlegðar til skemmri tíma og sterkt sjóðstreymi gegna lykilhlutverki til þess að styðja við metnaðarfull markmið okkar um að geta boðið heildarlausnir á þessum ört vaxandi markaði, auk þess að styðja við markmið um að 50% af heildartekjum komi frá þjónustu og hugbúnaði. 

Ný stoð bættist við með kaupunum á Wenger sem er leiðandi fyrirtæki í lausnum og þjónustu fyrir framleiðendur á matvælum fyrir gæludýr, fóðri fyrir fiskeldi og markaðsaðila sem eru að hasla sér völl á ört vaxandi neytendavörumarkaði með afurðir úr plöntupróteinum. Frá og með þriðja ársfjórðungi verða því fjórar stoðir í rekstrarmódeli Marel. Áætlað er að kaupin muni hafa jákvæð áhrif á bæði framlegð og hagnað.“

Horfur

Marel hefur endurskoðað markmið um EBIT framlegð í 14-16% í lok árs 2023 í stað 16% áður, í ljósi umróts í aðfangakeðjum og alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Marel stendur að öðru leyti við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma. Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði í árslok 2023.

Markaðsaðstæður eru áfram krefjandi í ljósi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem hafa leitt til óhagkvæmni í framleiðslu og þjónustu og hærri kostnaðar vegna afhendinga. Á síðari helmingi ársins, gerir Marel ráð fyrir auknum tekjum og bættri rekstrarafkomu með sterkri stöðu pantanabókar og virkri verðstýringu á vörum sem mun leiða til betri kostnaðarþekju á nýjum pöntunum. Marel hefur merkt aukna spurn eftir hátækni- og hugbúnaðarlausnum og þjónustu í matvælaiðnaðinum þar sem aukin áhersla er á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir við framleiðslu, og tryggja þannig örugg matvæli sem unnin eru á sjálfbæran hátt.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Á undanförnum fimm árum hefur vöxtur markaða verið undir lengri tíma markaðsvexti. Gert er ráð fyrir að vöxtur á fimm ára tímabili (2021-2026) verði 6-8% í ljósi uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar og hröðun eftirspurnar í kjölfar heimsfaraldurs.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.
  • Marel gerir ráð fyrir að stöðugar tekjur frá þjónustu, varahlutum og hugbúnaði muni nema um 50% af heildartekjum félagsins í árslok 2026.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar í rekstrarfjármunum, að frátöldum nýsköpunarverkefnum, muni aukast í að meðaltali 4-5% af tekjum á tímabilinu 2021-2026, en fari svo aftur í eðlilegra horf.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Rafrænn afkomufundur með markaðsaðilum

Fimmtudaginn 28. júlí 2022 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Fundurinn verður eingöngu rafrænn en þar munu stjórnendur kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi.

Fundinum verður vefvarpað beint á marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á marel.com/ir eftir fundinn.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:

  • IS: +354 800 7437 (PIN 65276904#)
  • NL: +31 10 712 9162
  • UK: +44 33 3300 9034
  • US: +1 631 913 1422 (PIN 65276904#)

Fjárhagsdagatal

  • 3F 2022 – 2. nóvember 2022
  • 4F 2022 – 8. febrúar 2023
  • AGM – 22. mars 2023

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001. 

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Í gegnum árin, hefur Marel skref fyrir skref, útvíkkað starfsemi sína. Með kaupunum á Wenger, sem tilkynnt voru 27. apríl, myndast fjórða stoðin í viðskiptamódeli Marel með áherslu á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi. Hjá félaginu starfa 7.000+ manns í yfir 30 löndum, þar af um 750 á Íslandi. Marel velti um 1,4 milljarði evra árið 2021 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands síðan árið 1992 og var lokið við tvíhliða skráningu í Euronext Kauphöllina í Amsterdam árið 2019. Frekari upplýsingar má finna á marel.com/ir.


1 Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA) og fyrir kostnaði tengdum yfirtökum.
2 Nettó skuldir (þar með taldar leiguskuldbindingar) / Pro-forma EBITDA sl. 12 mánaða

Viðhengi



Attachments

Marel Q2 2022 Condensed Consolidated Interim Financial Statements Marel Q2 2022 Condensed Consolidated Interim Financial Statements (Excel) Marel Q2 2022 Press release