Alma íbúðafélag hf.: Árshlutareikningur 30.6.2023
Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Ölmu íbúðafélags hf. árshlutareikning samstæðunnar fyrir fyrri árshelming 2023.
Leigutekjur samstæðunnar námu 2.147 m. kr. og aðrar rekstrartekjur námu 91 m. kr. Heildartekjur samstæðunnar námu því 2.238 m. kr. á tímabilinu. EBITDA tímabilsins var 1.543 m. kr. og hækkaði um 319 m. kr. Tap tímabilsins nam 2.105 m. kr. Handbært fé frá rekstri nam 1.047 m. kr.
Heildareignir samstæðunnar námu 99,2 mö. kr. þann 30. júní 2023, en þar af voru fjárfestingareignir að andvirði 74,6 ma. kr. Hlutfall heildar vaxtaberandi skulda af heildareignum nemur 56% og eigið fé samstæðunnar var 30,7 ma. kr.
Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags:
„Þrátt fyrir jákvæða þróun bæði í tekjumyndun og í kostnaðaraðhaldi í rekstri félagsins þá leiddu vaxtahækkanir til tapreksturs hjá félaginu. Seðlabankinn hefur stuðlað að hækkun bæði verðtryggðra og óverðtryggðra vaxta undanfarin misseri og við erum hugsi um hvaða efnhagslegu skilaboð bankinn er að senda leigusölum með síendurteknum vaxtahækkunum.
Kjarnarekstur félagsins gekk vel á tímabilinu. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu af útleigu íbúðarhúsnæðis jókst um 19% á milli tímabila en arðsemin nam þó ekki nema 3,5%. Útleiga atvinnuhúsnæðis gekk einnig vel og umfangið jókst með nýjum tekjuberandi eignum.
Áframhaldandi eftirspurn eftir þjónustu félagsins á tímabilinu endurspeglast í góðu nýtingarhlutfalli sem nam 97,6% á tímabilinu fyrir útleigu íbúðarhúsnæðis. Félagið heldur áfram að stuðla að heilbrigðum íbúðaleigumarkaði m.a. með því að bjóða viðskiptavinum upp á allt að fimm ára leigusamninga.
Félagið hélt áfram að styrkja eignasafnið með 1.295 m. kr. fjárfestingum á tímabilinu. Fjárfesting í nýjum tekjuberandi íbúðum og endurbótum nam 377 m. kr. Fjárfesting í íbúðum í byggingu nam 388 m. kr. og er áætlað að þær íbúðir verði afhentar félaginu í árslok 2025 og byrjun árs 2026. Fjárfesting í atvinnuhúsnæði í byggingu nam 530 m. kr. og munu þær eignir verða tekjuberandi á síðasta ársfjórðungi 2023.
Matsbreyting á tímabilinu nam 484 m. kr. og er tilkomin vegna verðlagsáhrifa á atvinnuhúsnæði. Matsbreyting íbúðarhúsnæðis var neikvæð um 91 m. kr.
Á tímabilinu hefur félagið aukið hlutdeild verðtryggðrar fjármögnunar og eru vegnir verðtryggðir vextir félagsins 2,82%. Vegnir óverðtryggðir vextir hafa tekið breytingum samhliða hækkun stýrivaxta á tímabilinu og nema nú 8,83%. Hlutdeild verðtryggðra lána nemur nú 56% af vaxtaberandi skuldum en nam 45% í árslok 2022.“
Nánari upplýsingar veitir Ingólfur Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri, ingolfur@al.is.
Viðhengi