Kvika banki hf.: Úthlutun kauprétta


Á grundvelli heimildar aðalfundar Kviku banka hf., sem haldinn var þann 31. mars 2022, hefur stjórn bankans samþykkt að veita fjórum starfsmönnum samstæðu bankans kauprétti að samtals 5.058.621 hlutum í félaginu og hefur nú verið gengið frá samningum þar að lútandi.

Kaupréttunum er úthlutað sem frestuðum hluta ráðningarkaupauka sem voru veittir á bilinu desember 2022 til apríl 2023. Kaupréttirnir eru veittir í því skyni að samtvinna hagsmuni félagsins og viðkomandi starfsmanna til lengri tíma. Skilmálar kaupréttarsamninganna eru í samræmi við starfskjarastefnu og kaupaukakerfi félagsins, lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sem og reglur Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands nr. 388/2016 um kaupaukakerfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Meginefni kaupréttarsamninganna er sem hér segir:

  • Innlausnarverð kaupréttanna er kr. 20,107 á hlut sem jafngildir vegnu meðalgengi í viðskiptum með hluti í félaginu á Nasdaq OMX Iceland síðustu tíu viðskiptadaga fyrir undirritun kaupréttarsamninga, ávaxtað með 7,5% ársvöxtum yfir tímabilið, og skal kaupverðið m.a. leiðrétt fyrir arðgreiðslum sem kunna að vera ákveðnar á ávinnslutíma kaupréttanna.
  • Ávinnslutími kaupréttanna er 36 mánuðir frá útgáfudegi kaupaukanna. Að þeim tíma loknum er á næstu þremur mánuðum heimilt að nýta kaupréttina. Komi hins vegar til samruna þar sem félaginu er slitið eða þess að breyting verði á yfirráðum félagsins, sbr. 100. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, ávinnast allir útistandandi kaupréttir þegar við þær aðstæður.
  • Almennt skulu kaupréttir falla niður ef ráðningarsambandi kaupréttarhafa við félagið er slitið fyrir lok ávinnslutíma.
  • Framkvæmdastjórar samstæðunnar skuldbinda sig til þess að halda, allt til starfsloka, hlutum sem að markaðsverði samsvara hagnaði eftir skatta af nýttum kauprétti þar til verðmæti hluta í eigu kaupréttarhafa samsvarar sem nemur sex mánaða launum.
  • Virði kaupréttanna var ákvarðað af óháðum sérfræðingi og rúmast verðmætin innan þeirra laga og reglna sem um kaupauka fjármálafyrirtækja gilda.
  • Í ákveðnum tilfellum er félaginu heimilt að afturkalla kauprétti í heild eða að hluta í samræmi við reglur Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

Heildarkostnaður vegna kaupréttarsamninga sem hér er tilkynnt um er áætlaður 14.670.000 kr. byggt á reiknilíkani Black-Scholes. Heildarfjöldi útgefinna kauprétta samkvæmt framangreindri útgáfu nemur um 0,11% hlutafjár í félaginu.

Upplýsingar um viðskipti stjórnenda með framangreinda kauprétti eru í viðhengi.

Viðhengi



Attachments

Birkir Jóhannsson Eiríkur Magnús Jesson