Uppgjör Haga hf. á 2. ársfjórðungi 2023/24
Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2023/24 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 18. október 2023. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 31. ágúst 2023. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.
Helstu lykiltölur
- Vörusala 2F nam 45.309 m.kr. (4,4% vöxtur frá 2F 2022/23). Vörusala 6M nam 86.799 m.kr. (6,4% vöxtur frá 6M 2022/23). [2F 2022/23: 43.399 m.kr., 6M 2022/23: 81.612 m.kr.]
- Framlegð 2F nam 9.903 m.kr. (21,9%) og 17.975 m.kr. (20,7%) fyrir 6M. [2F 2022/23: 8.383 m.kr. (19,3%), 6M 2022/23: 15.947 m.kr. (19,5%)]
- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 2F nam 4.472 m.kr. eða 9,9% af veltu. EBITDA 6M nam 6.993 m.kr. eða 8,1% af veltu. [2F 2022/23: 4.369 m.kr. (10,1%), 6M 2022/23: 7.037 m.kr. (8,6%)]
- Hagnaður 2F nam 2.084 m.kr. eða 4,6% af veltu. Hagnaður 6M nam 2.737 m.kr. eða 3,2% af veltu. [2F 2022/23: 2.378 m.kr. (5,5%), 6M 2022/23: 3.304 m.kr. (4,0%)]
- Grunnhagnaður á hlut 2F var 1,88 kr. og 2,47 kr. fyrir 6M. [2F 2022/23: 2,10 kr., 6M 2022/23: 2,92 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 2F var 1,84 kr. og 2,42 kr. fyrir 6M. [2F 2022/23: 2,03 kr., 6M 2022/23: 2,84 kr.]
- Eigið fé nam 27.381 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 36,3%. [Árslok 2022/23: 27.931 m.kr. og 38,8%]
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2023/24 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 12.250-12.750 m.kr.
Helstu fréttir af starfsemi
- Rekstur á nýliðnum ársfjórðungi gekk vel, og var nokkuð umfram áætlanir, þá sérstaklega í eldsneytishluta félagsins. Vörusala jókst um 4,4% milli ára og EBITDA jókst um 2,4% milli ára.
- Á fyrra ári námu einskiptisliðir vegna áhrifa viðskipta með Klasa 966 m.kr. Án áhrifa einskiptisliða vegna Klasa á fyrra ári jókst EBITDA um 31,4% milli ára.
- Seldum stykkjum í dagvöruverslunum fjölgar milli ára um 6,9% og heimsóknum viðskiptavina fjölgar einnig, eða um 12,5% á fjórðungnum. Lítilsháttar aukning var í seldum eldsneytislítrum á fjórðungnum eða sem nam 0,3%.
- Framlegð í krónum talið eykst um 18,1% milli ára og framlegðarhlutfallið hækkar um 2,5%-stig. Hækkun framlegðarhlutfalls má að mestu rekja til viðskipta stórnotenda hjá Olís en framlegðarhlutfall í dagvöru stendur í stað.
- Bónus opnaði nýja 2.500 m2 matvöruverslun í Holtagörðum þann 22. júlí og var gömlu versluninni þar í húsi lokað á sama tíma.
- Hagkaup setti á laggirnar veisluþjónustu á heimasíðu sinni, Veisluréttir Hagkaups, þar sem boðið er upp á gómsæta veislubakka í netverslun.
- Í júní opnaði Olís nýja og glæsilega þjónustustöð að Fitjum í Reykjanesbæ.
Finnur Oddsson, forstjóri:
Starfsemi Haga á sumarmánuðum, öðrum ársfjórðungi rekstrarársins 2023/24, gekk vel. Vörusala samstæðu nam 45,3 ma. kr. og jókst um 4,4% miðað við sama tímabil í fyrra. Afkoma á fjórðungnum var sterk, en EBITDA nam 4.472 m.kr. og hagnaður 2.084 m.kr. Við erum ánægð með rekstur félagsins í sumar og fyrri hluta árs, sérstaklega þegar horft er til þess að umhverfi er áfram ögrandi; aðföng í dagvöru hafa haldið áfram að hækka, rekstrarkostnaður einnig og töluverðar sveiflur hafa verið á eldsneytisverði.
Afkoma frá rekstri Haga styrktist á milli ára. EBITDA nam 9,9% af veltu og eykst um 31% að frádregnum einskiptisliðum sem voru til hækkunar á EBITDA í fyrra. Framlegð hefur hækkað um 18% í krónum talið, en einnig sem hlutfall af tekjum.
Umsvif halda áfram að aukast þvert á allar rekstrareiningar Haga, en megin skýring á bættri framlegð og rekstrarafkomu yfir áætlunum liggur í sterkari rekstri Olís á fjórðungnum. Tekjur Olís á fjórðungnum námu 15 ma. kr. og eldsneytissala í lítrum talið var sögulega sterk, lítilsháttar aukning í samanburði við mjög sterkan fjórðung í fyrra. Sala til stórnotenda og stórt ferðamannasumar á Íslandi hafði jákvæð áhrif á heildarsölu eldsneytis og þurrvöru, bæði á smásölu og fyrirtækjamarkaði. Samdráttur í tekjum á milli ára skýrist af því að heimsmarkaðsverð á olíu var talsvert lægra í ár en á sama tíma í fyrra. Framlegð og afkoma styrktust hins vegar töluvert, en helstu ástæður þess liggja í því að hagræði vegna skipulagsbreytinga síðustu missera er nú að fullu komið fram í rekstri og hækkun á heimsmarkaðsverði olíu á sumarmánuðum 2023 samhliða virkri birgðastýringu skilaði aukinni framlegð.
Sem fyrr er sterkur tekjuvöxtur í verslunum og vöruhúsum, en þar undir falla m.a. verslanir Bónus og Hagkaups, Eldum rétt, Aðföng og Bananar. Tekjur jukust um tæplega 17% á milli fjórðunga, en eins og áður má að hluta rekja þessa aukningu til verðbólgu, hækkandi verðs aðfanga frá heildsölum og framleiðendum sem hefur verið viðvarandi viðfangsefni undanfarin ár og sérstaklega síðustu 12 mánuði. Það er hins vegar ánægjulegt að heimsóknum viðskiptavina í dagvöruverslanir Haga hefur fjölgað áfram og sömuleiðis seldum stykkjum, sem skýrir að stórum hluta þennan mikla tekjuvöxt.
Nýjar verslanir Bónus sem opnaðar voru í sumar, í Norðlingaholti og Holtagörðum, fara vel af stað, en almennt þá hefur viðskiptavinum Bónus fjölgað ört síðustu misseri. Við teljum sem fyrr að áherslur í rekstri félagsins og loforð um að leitast ávallt við að bjóða upp á hagkvæmustu matvörukörfuna eigi vel við, sérstaklega á verðbólgutímum eins og nú eru. Eins og fram hefur komið, þá munum við um áramót sjá á eftir góðum liðsmanni í þessari baráttu þegar Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus til 25 ára, lætur af störfum. Ég þakka honum afar gott samstarf og mikilsvert framlag til Bónus og Haga í gegnum tíðina. Það er hins vegar ánægjulegt að maður kemur í manns stað, en Björgvin Víkingsson aðstoðarframkvæmdastjóri Bónus hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra frá áramótum. Víðtæk reynsla Björgvins af innkaupum, vörustjórnun og forystu í umsvifamikilli starfsemi mun efla starfsemi Bónus og treysta stöðu félagins enn frekar sem leiðandi aðili á dagvörumarkaði.
Viðskiptavinum Hagkaups heldur áfram að fjölga sem staðfestir að aukið úrval í verslunum, nýjar netverslanir og góð þjónusta mælast vel fyrir. Heimilum sem fá senda matarpakka frá netverslun Eldum rétt eða kaupa einstaka rétti fyrirtækisins í Hagkaup fjölgaði mikið í sumar, jafnvel meira en á fyrri hluta árs. Við lítum svo á að stækkandi viðskiptavinahópur Eldum rétt endurspegli að þjónustan sé bæði þægileg og hagkvæm og að rétt eldaður matur sé einstaklega bragðgóður. Afkoma starfsþáttarins verslanir og vöruhús er heldur að styrkjast á milli fjórðunga, fyrst og fremst vegna aukinnar veltu.
Þróun og uppbygging samstæðu Haga miðar vel áfram og fjöldi verkefna sem sett hafa verið í gang á undanförnum misserum eru í góðum farvegi. Rekstur Bónus hefur styrkst, með opnun nýrra verslana og aukinni þjónustu við viðskiptavini, m.a. í formi tæknilausna eins og Gripið & Greitt. Sömuleiðis hefur vöruframboð í Hagkaup verið stóraukið, netverslun styrkt og aðbúnaður í verslunum bættur, bæði til aukinna þæginda fyrir viðskiptavini en einnig til að gera Hagkaup að einni umhverfisvænustu verslunarkeðju landsins. Rekstur Olís hefur verið straumlínulagaður á síðustu misserum, m.a. með nýju skipulagi í þjónustu við stórnotendur og bættri upplifun á þjónustustöðvum, en hvoru tveggja endurspeglast í bættri afkomu félagsins að undanförnu. Fyrsta starfsár Stórkaups gekk vel og framundan er frekari sókn á vaxandi markað rekstraraðila og stórnotenda. Með kaupum á Eldum rétt hefur starfsemi Haga á dagvörumarkaði verið útvíkkuð og viðskiptavinahópur sömuleiðis, enda er Eldum rétt líklega ein stærsta netverslun landsins með matvöru. Því tengt, þá hafa mikilvæg skref verið stigin í nýtingu á upplýsingatækni til að þjónusta viðskiptavini, en þróun stafrænna lausna er nú einn af lykilþáttum í okkar starfsemi. Þróun netverslana fyrir Hagkaup, Stórkaup o.fl. og þróun Gripið & Greitt fyrir Bónus hefur myndað mikilvægan grunn að tækniumhverfi sem mun nýtast til að efla þjónustu rekstrareininga Haga við viðskiptavini enn frekar og horfum við þar til fjölda nýrra og spennandi tækifæra. Þróunar- og fasteignaverkefnum á vegum Klasa miðar vel og er gert ráð fyrir að áhugaverðir þróunarreitir komist af skipulagsstigi í byggingu á næstu mánuðum.
Heilt yfir erum við ánægð með rekstrarniðurstöðu fjórðungsins og þróun samstæðu Haga á undanförnum misserum. Afkoma hefur haldið áfram að styrkjast, fyrst og fremst vegna almennrar hagræðingar í rekstri, stefnumarkandi ákvarðana sem hafa reynst vel og almennt aukinna umsvifa hjá öllum einingum Haga. Viðfangsefni okkar fram undan verður annars vegar að styðja við áframhaldandi þróun samstæðunnar og hins vegar að kljást við og vinna gegn verðhækkunum í dagvöru og verðbólgu sem hefur verið viðvarandi um of langt skeið. Staða Haga til að vinna það verk er sterk, fjárhagslega, markaðslega og ekki síst þekkingarlega, en félagið hefur á að skipa reynslumiklum hópi starfsfólks sem ber hag viðskiptavina fyrir brjósti og hefur metnað til að gera verslun hagkvæma, þægilega og skemmtilega.
Rafrænn kynningarfundur fimmtudaginn 19. október 2023
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn fimmtudaginn 19. október kl. 08:30, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.
Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.
Fundinum verður streymt og er skráning á fundinn hér: https://www.hagar.is/skraning
Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.
Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.
Viðhengi