Þann 21. mars tilkynnti Fly Play hf. („PLAY“ eða „félagið“) um að félaginu hefðu borist bindandi áskriftarloforð frá núverandi hluthöfum og öðrum fjárfestum fyrir 1.000.000.000 hluta á áskriftargenginu 4,5 kr. á hvern hlut – samanlagt 4.500 milljón krónur.
Til að tryggja jafnræði hluthafa var ákveðið að efna til almenns hlutafjárútboðs á allt að 111.111.112 hlutum á áskriftargenginu 4,5 kr. á hvern hlut – samanlagt 500 m.kr. Almenna hlutafjárútboðið hófst þriðjudaginn 9. apríl og lauk 11. apríl klukkan 16:00 (GMT). Alls bárust áskriftir að fjárhæð um 105 milljónum króna og því hefur PLAY safnað um 4,6 milljörðum króna frá því að tilkynnt var um fyrirhugaða fjármögnunarlotu í kjölfar ársuppgjörs þann 8. febrúar síðastliðinn.
Fjárfestum verður tilkynnt um endanlega úthlutun mánudaginn 15. apríl og er fyrirhugaður greiðsludagur 23. apríl.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY:
Við erum ánægð með niðurstöðu þessarar fjármögnunarlotu enda niðurstaðan talsvert yfir þeirri fjárhæð sem við ráðgerðum í upphafi að safna. Niðurstaðan er góð samblanda af þátttöku núverandi hluthafa og nýrra hluthafa sem m.a. samanstanda af stofnanafjárfestum og öflugum fjárfestingafélögum. Ég er þakklátur því trausti sem þessir fjárfestar sýna okkur. Stjórnendur félagsins eru nú einbeittir í að efla rekstur PLAY enn frekar og ná settum markmiðum.
Arctica Finance hf. hefur umsjón með útboðinu, útgáfu og töku hinna nýju hlutabréfa til viðskipta ásamt því að annast innheimtu og uppgjör viðskiptanna í tengslum við útboðið. Arctica Finance hf. og Fossar fjárfestingarbanki hf. eru sameiginlegir söluaðilar í útboðinu.
Arctica Finance hf. hefur umsjón með töku hlutabréfa PLAY til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.