Meðfylgjandi má sjá niðurstöður aðalfundar Haga hf. sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica þann 30. maí 2024. Fundurinn hófst kl. 15:00. Tillögur fundarins voru samþykktar svohljóðandi:
- Ársreikningur (dagskrárliður 2)
Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár, ásamt skýrslu endurskoðanda, var lagður fram og samþykktur samhljóða.
- Ráðstöfun hagnaðar (dagskrárliður 3)
Tillaga stjórnar Haga hf. um greiðslu arðs sem nemur 50,0% hagnaðar ársins, eða 2,33 krónur á hlut útistandandi hlutafjár, samtals 2.522 milljónir króna, var samþykkt samhljóða. Arðsréttindadagur verður 3. júní 2024, arðleysisdagur 31. maí 2024 og arðgreiðsludagur 7. júní 2024.
- Þóknun til stjórnarmanna og undirnefnda (dagskrárliður 4)
Tillaga stjórnar Haga hf. um 3,25% hækkun stjórnarlauna var samþykkt, þ.e. stjórnarformaður fær greitt kr. 798.000,- á mánuði, varaformaður kr. 587.000,- á mánuði og stjórnarmenn kr. 399.000,- á mánuði. Samþykkt var að laun í undirnefndum stjórnar verði óbreytt, eða kr. 90.000,- á mánuði og að laun formanns verði tvöföld upphæð. Þá var samþykkt að nefndarmönnum tilnefningarnefndar verði greitt skv. reikningi 25 þús. kr. pr./klst.
- Starfskjarastefna og kaupréttarkerfi (dagskrárliður 5)
Tillaga stjórnar um breytta starfskjarastefnu var samþykkt samhljóða. Samþykkt starfskjarastefna er hér meðfylgjandi. Afgreiðsla tillögu stjórnar um kaupréttarkerfi var frestað til afgreiðslu síðar á hluthafafundi eða aðalfundi.
- Breyting á starfsreglum tilnefningarnefndar (dagskrárliður 6)
Tillaga stjórnar að breytingu á grein 4.5. og 6.1. í starfsreglum tilnefningarnefndar var samþykkt. Samþykktar starfsreglur eru hér meðfylgjandi.
- Kosning fulltrúa í tilnefningarnefnd (dagskrárliður 7)
Samþykkt var samhljóða tillaga stjórnar Haga að þrír eftirtaldir fulltrúar verðir kjörnir í tilnefningarnefnd félagsins.
- Björg Sigurðardóttir, endurskoðandi
- Björn Ágúst Björnsson, verkfræðingur
- Kristjana Milla Snorradóttir, mannauðsstjóri
- Kosning stjórnar og endurskoðanda (dagskrárliður 8)
Eftirtaldir aðilar voru kosnir í stjórn félagsins til næsta aðalfundar:
- Davíð Harðarson, f. 1976
- Eiríkur S. Jóhannsson, f. 1968
- Eva Bryndís Helgadóttir, f. 1972
- Jensína Kristín Böðvarsdóttir, f. 1969
- Sigríður Olgeirsdóttir, f. 1960
Fimm voru í framboði til stjórnar félagsins og var því sjálfkjörið. Allir frambjóðendur skipuðu áður stjórn félagsins.
Samþykkt var samhljóða að endurskoðunarskrifstofan PricewaterhouseCoopers ehf., kt. 690681-0139, verði endurskoðandi félagsins fyrir komandi rekstrarár.
- Kosning um utanaðkomandi nefndarmann í endurskoðunarnefnd (dagskrárliður 9)
Fyrir aðalfundi lá tillaga frá stjórn Haga hf. um að Hannes Ágúst Jóhannesson, löggiltur endurskoðandi, yrði kosinn sem utanaðkomandi nefndarmaður í endurskoðunarnefnd. Var tillaga stjórnar samþykkt samhljóða.
- Ákvörðun um heimild stjórnar til kaupa á eigin bréfum (dagskrárliður 10)
Fyrir aðalfundi lá tillaga frá stjórn Haga hf. um að félaginu verði heimilt að kaupa á næstu 18 mánuðum allt að 10% af heildarhlutafé félagsins, í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga eða vegna endurkaupaáætlana eða verðjöfnunar í skilningi reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014, um markaðssvik, sbr. lög um aðgerðir gegn markaðssvikum. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Viðhengi
- Hagar Tilnefningarnefnd-starfsreglur_apríl 2024_samþykkt á aðalfundi
- Starfskjarastefna Haga maí 2024_samþykkt á aðalfundi