Festi hf: Festi og Samkeppniseftirlitið undirrita sátt vegna kaupanna á Lyfju


Festi og Samkeppniseftirlitið hafa undirritað sátt vegna kaupa Festi á öllu hlutafé Lyfju hf. Með sáttinni samþykkir Samkeppniseftirlitið samrunann með skilyrðum sem sett eru til að efla og vernda virka samkeppni á þeim mörkuðum sem samruninn hefur áhrif á og ryðja úr vegi þeim samkeppnishindrunum sem samruninn myndi annars leiða til samkvæmt frummati Samkeppniseftirlitsins. Telst rannsókn málsins af hálfu Samkeppniseftirlitsins því lokið.

Sátt Festi við Samkeppniseftirlitið felur í aðalatriðum í sér eftirfarandi þætti:

  • Festi skuldbindur sig til að tryggja að ráðningarsamningar á milli Lyfju og lyfjafræðinga sem starfa hjá félaginu innihaldi ekki ákvæði um samkeppnisbann eða aðrar samkeppnishömlur.
  • Festi skuldbindur sig til að tryggja rekstrarlegan aðskilnað vegna starfsemi Heilsu ehf. („Heilsa“). Í því felst m.a. að Heilsa skal áfram rekið sem sjálfstæður lögaðili og öll starfsemi félagsins, viðskiptaleg ákvörðunartaka og dagleg stjórnun þess verði aðskilin frá starfsemi annarra dótturfélaga Festi. Jafnframt tekur sáttin til þess að rekstur Heilsu fari fram í húsnæði sem aðskilið verður frá starfsemi tiltekinna dótturfélaga Festi og að aðgreining sé einnig tryggð með aðgangsstýringu að tölvu- og upplýsingakerfum Heilsu. Festi verður þó heimilt að veita Heilsu skilgreinda stoðþjónustu enda fari veiting slíkrar þjónustu ekki gegn markmiðum sáttarinnar. Þá er kveðið á um nánar tilgreind skilyrði varðandi skipan stjórnar Heilsu.
  • Festi skuldbindur sig til að tryggja að Heilsa selji þeim smásöluaðilum sem eftir því leita vörur í heildsölu á viðskiptalegum grunni. Verður Heilsu skylt að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart þeim smásöluaðilum sem kaupa vörur af félaginu í heildsölu. Þá er Heilsu skylt að halda trúnað um upplýsingar er varða viðskiptavini þess og gæta þess að viðkvæmar upplýsingar fari ekki til annarra félaga í samstæðu Festi eða til keppinauta viðskiptamanna Heilsu.
  • Skilyrði varðandi Heilsu, sbr. punkta 2 og 3 að framan, falla úr gildi að fimm árum liðnum frá undirritunardegi sáttarinnar, 14. júní 2024.

Af sáttinni leiðir að Festi verður nú heimilt að framkvæma samrunann, með því að taka við rekstri Lyfju og dótturfélaga þess. Næstu vikur verða nýttar af hálfu Festi, sem kaupanda, og SID ehf., sem seljanda, til að undirbúa afhendingu hins selda og greiðslu kaupverðsins sem stefnt er að fari fram fyrri hluta júlímánaðar 2024.

Nánar verður upplýst um framgang viðskiptanna um leið og tilefni er til.

Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi:

Við fögnum þeim mikilvæga og ánægjulega áfanga sem felst í sátt Festi og Samkeppniseftirlitsins vegna kaupanna á Lyfju. Mikil tækifæri felast í samþættingu þjónustu þvert á félögin innan Festi sem og framboði breiðara úrvals nauðsynjavara á hagstæðu verði fyrir viðskiptavini okkar um land allt. Auk þess er skýr samhljómur meðal fyrirtækjanna um aukin þægindi við innkaup, m.a. í gegnum netverslun og heimsendingar, samkeppnishæf verð og fyrirbyggjandi heilsuvernd.

Við erum gríðarlega spennt að fá loksins að kynnast þeim öfluga hópi starfsfólks sem stendur að baki Lyfju og ræða tækifærin framundan.“  

Frekari upplýsingar veitir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi (asta@festi.is).