Heimar hf.: Vegna brunans sem upp kom á Höfðatorgi


Eldur kom upp í glerskála á jarðhæð á Höfðatorgi rétt fyrir hádegi í dag. Rýming hússins gekk vel og engin slys urðu á fólki. Slökkvilið var mætt á staðinn skömmu eftir eldsupptök og innan við klukkustund síðar var búið að ráða niðurlögum eldsins.

Heimar vilja koma á framfæri þakklæti sínu til viðbragðsaðila fyrir afar skjót viðbrögð. Þá á starfsfólk í húsinu hrós skilið fyrir hraða og yfirvegaða rýmingu í samræmi við eldvarnaráætlun byggingarinnar.

Fram kom hjá Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðsstjóra að eldvarnir í húsinu séu afar góðar sem hafi auðveldað slökkvistarf og átt þátt í að takmarka útbreiðslu eldsins. Eðlileg starfsemi er nú hafin að nýju í flestum rýmum byggingarinnar.

Enn er verið að meta umfang tjónsins sem orðið hefur á jarðhæð hússins en fyrsta mat félagsins bendir til þess að það sé takmarkað við þetta afmarkaða svæði í húsinu. Heimar eru vel tryggðir fyrir tjónum af þessu tagi og hefur tryggingafélag Heima þegar hafist handa við meta tjónið.

Starfsfólk Heima hefur í dag verið í sambandi við leigutaka sína á Höfðatorgi og í nærliggjandi byggingum til að veita helstu upplýsingar um viðbrögð félagsins. Nokkrir tugir leigutaka eru í umræddri byggingu en einungis er vitað um tjón hjá nokkrum þeirra.

Ekki er talið að bruninn hafi veruleg áhrif á afkomuhorfur Heima árið 2024.

Nánari upplýsingar veitir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima hf., sími: 821 0001