Landsbankinn hf.: Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024


  • Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi.
  • Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
  • Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna nam 2,9% og vaxtamunur heimila á tímabilinu var 2%.
  • Hreinar vaxtatekjur voru 29,1 milljarður króna og hreinar þjónustutekjur voru 5,4 milljarðar króna.
  • Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 3,5 milljarða króna, en stór hluti virðisbreytinga eru vegna óvissu um fjárhagslegar afleiðingar náttúruhamfaranna á Reykjanesskaga.
  • Kostnaðarhlutfall er 33,1% samanborið við 36,1% á sama tímabili árið 2023.
  • Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 24,4% en fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerir 20,4% heildarkröfu um eiginfjárgrunn.
  • Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður 30. maí.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu sex mánuði ársins er sterkt og öll fjárhagsleg markmið sem bankinn hafði sett sér náðust. Arðsemi er í samræmi við markmið og kostnaðarhlutfallið er með því lægsta sem gerist. Vaxtatekjur eru sterkar en vel hefur tekist til við ávöxtun á lausafé bankans.

Stærsti viðburður síðasta fjórðungs er undirritun á samningi um kaup bankans á TM en markmiðið með kaupunum er að bjóða viðskiptavinum fjölbreyttari þjónustu, fjölga tekjustoðum og auka verðmæti bankans fyrir hluthafa. Kaupin bíða nú samþykkis frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitinu.

Þjónustutekjur lækka eilítið, eftir sérlega góðan árangur á sama tímabili í fyrra, en leitnin er upp á við. Kraftmikil þróun og nýjungar í appi, ásamt fjölgun fyrirtækja í viðskiptum skila bankanum auknum tekjum, hvort sem er í gegnum færsluhirðingu eða aðra þjónustu. Við erum stolt af þeim glæsilega árangri sem hefur náðst við að innleiða nýja þjónustu í Landsbankaappið. Samhliða hefur öryggi verið aukið með nýrri neyðarþjónustu þar sem viðskiptavinir geta lokað á allan aðgang á augabragði, bæði að greiðslukortum, appi og netbanka og ekki er hægt að opna aftur nema hafa samband við bankann.

Við leggjum áherslu á að einfalda viðskiptavinum lífið. Árangur okkar birtist í góðu uppgjöri, hagkvæmum rekstri og góðum skilningi á flóknu rekstrarumhverfi sem reglulega er rýnt af eftirlitsaðilum. Við höfum fjölgað tekjustoðum og bjóðum mjög fjölbreytta bankaþjónustu sem flestir viðskiptavinir nýta sér daglega eða oftar. Ég er ánægð með hversu vel starfsfólki bankans tekst að eiga við ólíkar áskoranir og breytingar á starfsumhverfi bankans. Ekkert okkar missir sjónar á því allra mikilvægasta, að viðskiptavinir séu ánægðir og fái hagkvæma og góða þjónustu, því það mun skila okkur árangri til framtíðar.“

Fjárhagsdagatal Landsbankans

  • Uppgjör 3F 2024 23. október 2024
  • Ársuppgjör 2024 30. janúar 2025 


Nánari upplýsingar veita:                

Samskipti, samskipti@landsbankinn.is

Fjárfestatengsl, fjarfestatengsl@landsbankinn.is


Viðhengi



Attachments

Landsbankinn_uppgjorskynning_30.06.2024 Landsbankinn_fréttatilkynning_30.06.2024 Landsbankinn_samandreginn_árshlutareikningur_samstæðu_30.6.2024