Fly Play hf.: Breytingar á framkvæmdastjórn og stjórnendum hjá Play


Play hefur tilkynnt um skipulagsbreytingar á framkvæmdastjórn og stjórnendum, sem taka gildi frá og með næstu mánaðamótum. Breytingarnar eru hluti af stöðugri vinnu fyrirtækisins við að þróa og bæta reksturinn. 

Andri Geir Eyjólfsson verður framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs 

Andri Geir Eyjólfsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs (COO) og tekur við starfinu af Arnari Má Magnússyni sem hefur þegar látið af störfum. Andri Geir hefur starfað hjá Play frá stofnun fyrirtækisins árið 2019 sem tæknistjóri en síðastliðið ár hefur hann gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs. Andri Geir hefur fjölbreytta átján ára reynslu af flugrekstri og starfaði áður hjá WOW air sem aðstoðartæknistjóri. Hann hefur einnig gegnt öðrum störfum hjá Air Atlanta, Icelandair og WOW air. Andri lærði flugvirkjun hjá TEC Aviation í Danmörku. 

Sigurður Örn Ágústsson verður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og upplýsingatæknisviðs 

Sigurður Örn Ágústsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, verður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og upplýsingatæknisviðs (CDO). Georg Haraldsson framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs, lætur af störfum en verður félaginu til ráðgjafar næstu mánuði. Sigurður Örn á að baki langan feril í flugrekstri og hefur verið forstjóri og stjórnarformaður Bláfugls ásamt því að sitja í stjórn Avion Express. Hann er með MBA-gráðu frá Katz Graduate School of Business (University of Pittsburgh). Samhliða þessu hefur Ramunas Kurkutis verið ráðinn forstöðumaður upplýsingatæknisviðs og verður staðsettur á skrifstofu Play í Vilníus í Litháen. Ramunas er með yfir tveggja áratuga reynslu af stjórnunarstörfum í upplýsingatækni hjá alþjóðlegum fyrirtækjum. Hann býr yfir víðtækri reynslu í flug-, orku- og fjármálageiranum.  

Ný skrifstofa forstjóra og tveir nýir sviðsstjórar 

Stofnuð hefur verið skrifstofa forstjóra. Tvö svið verða til innan hennar. Annars vegar lögfræði- og mannauðssvið sem Jóhann Pétur Harðarson mun veita forstöðu. Hins vegar samskipta- og markaðsvið sem Nadine Guðrún Yaghi mun veita forstöðu. Jóhann Pétur hefur verið lögfræðingur félagsins frá árinu 2021 og hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífi. Hann er með cand. jur. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá NYU, Stern School of Business. Nadine Guðrún hefur starfað sem forstöðumaður samskipta- og þjónustu hjá Play frá árinu 2021. Þar áður starfaði hún sem frétta- og dagskrárgerðarkona til fjölda ára. Hún er með cand. jur. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands. 

Ný skipan framkvæmdastjórnar Play 

Framkvæmdastjórn Play verður því framvegis skipuð sex manns. Þau eru:  

  • Einar Örn Ólafsson, forstjóri 
  • Ruta Dabašinskaitė-Vitkė, fjármálastjóri 
  • Andri Geir Eyjólfsson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsvið 
  • Daníel Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri leiðakerfis og áætlunarsviðs 
  • Sonja Arnórsdóttir, framkvæmdastjóri tekna- og þjónustu 
  • Sigurður Örn Ágústsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og upplýsingatækni 

„Ég vil þakka Arnari Má og Georgi fyrir þeirra framlag á undanförnum árum og óska þeim alls hins besta. Andri Geir býr yfir mikilvægri reynslu af flugrekstri Play og hefur verið algjör lykilmaður í félaginu frá stofnun. Flugrekstrarsviðið verður því í góðum höndum með Andra Geir í fararbroddi. Fram undan eru spennandi tímar hjá Play, þar sem nýtt úrvalsteymi stjórnenda mun leiða félagið áfram til enn frekari árangurs,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.