Ljósleiðarinn | Árshlutauppgjör – Aukin velta og fjármagnsskipan í endurskoðun


Í kjölfar kaupa Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar jukust tekjur fyrirtækisins um tæp 40%. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri fyrstu sex mánaða ársins sem stjórn samþykkti í dag. Rekstrartekjur á fyrri helmingi yfirstandandi árs námu 2.770 milljónum króna en voru 2.019 milljónir fyrstu sex mánuðina 2023.

Unnið hefur verið að fella stofnnetið að kerfum Ljósleiðarans. Á fyrri helmingi ársins fellur ytri kostnaður vegna kaupa stofnnetsins hlutfallslega þyngra til en tekjur miðað við þegar fram í sækir. Vöxtur gjalda er því nánast samsvarandi tekjuvextinum í uppgjörinu. Veltufé frá rekstri vex engu að síður milli ára, úr 928 mkr. á fyrri hluta árs 2023 í 935 mkr. í ár. Fjármagnskostnaður er fyrirtækinu enn þungur og tap var á starfseminni á fyrri helmingi ársins sem nam 480 milljónum króna.

Eignir Ljósleiðarans eru bókfærðar á 37 milljarða króna og eiginfjárhlutfall í lok fyrri hluta árs var 34,7%

Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, rifjar upp að nú standi yfir endurskoðun á fjármagnsskipan fyrirtækisins. „Aðlögun stofnnets Sýnar að okkar rekstri hefur gengið vel og árshlutareikningurinn ber með sér að undirliggjandi rekstur Ljósleiðarans er traustur. Umhverfið er vissulega krefjandi og val okkar á fjárfrestingarverkefnum tekur auðvitað mið af því. Við erum með heimild til aukningar og sölu hlutafjár og erum að vinna að því að létta á skammtímaskuldum rekstursins.“

Ljósleiðarinn ehf. er fjarskiptafélag á heildsölumarkaði í eigu Orkuveitunnar, stofnað árið 2007. Hlutverk Ljósleiðarans er stuðla að heilbrigðri samkeppni á fjarskiptamarkaði með því að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgang að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti.

Tengiliður:

Einar Þórarinsson
framkvæmdastjóri
einar.thorarinsson@ljosleidarinn.is

Viðhengi



Attachments

Árshlutareikningur Ljósleiðarans 30.06.2024