Eik fasteignafélag hf. og hluthafar Festingar hf., kt. 550903-4150, hafa undirritað samkomulag um helstu skilmála vegna fyrirhugaðra kaupa Eikar fasteignafélags á öllu hlutafé í félaginu.
Fasteignir Festingar á Íslandi eru um 43.000 m2 að stærð í 11 fasteignum og hýsa starfsemi Samskipa hf. um landið og eru að stærstum hluta í Reykjavík en einnig á Akureyri, Dalvík, Egilsstöðum, Ísafirði og Vestmannaeyjum. Undanskilin í kaupunum eru dótturfélög Festingar í Noregi og Færeyjum sem eiga einnig fasteignir sem nýttar eru í starfsemi Samskipa. Ráðgert er að leigusamningar um eignirnar verði til 20 ára.
Heildarvirði (e. Enterprise Value) Festingar í viðskiptunum er áætlað 15.300.000.000 kr. og er fyrirhugað að kaupin verði fjármögnuð með handbæru fé og lánsfé. Byggt á áætlun stjórnenda Festingar um rekstrarhagnað ársins 2025 (EBITDA) á föstu verðlagi (m.v. vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í janúar 2025), áætlar Eik að áhrif á EBITDA félagsins á ársgrundvelli verði 1.085.000.000 kr.
Viðskiptin eru háð fyrirvörum um niðurstöður áreiðanleikakannana, fjármögnun og endanlega skjalagerð ásamt samþykki stjórnar Eikar fasteignafélags og Samkeppniseftirlitsins.
Ráðgjafar Eikar fasteignafélags í viðskiptunum er fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance hf. og ráðgjafar seljenda er fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka.
Upplýsingar veita:
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 820-8980